Fara í efni

ÞÖRF Á BJÖRGUNARLEIÐANGRI!

Þegar rjúpnaskytta týnist eða ferðalangur – þá er kallað út fjölmennt björgunarlið og ekkert til sparað þar til hinn týndi er fundinn og tryggt að hann fái bestu aðhlynningu sem völ er á. Kunningi minn einn spurði hvernig stæði á því að hið sama væri ekki látið gilda um þá sem yrðu að þola vosbúð af þeim toga sem við höfum fengið fregnir af úr Byrginu og Breiðuvík. Ekki virðist leika vafi á að á báðum stöðum hafi skelfilegir atburðir átt sér stað þótt áhöld kunni að vera á um sitthvað sem fram hefur komið í fjölmiðlum. En það er önnur saga. Það sem máli skiptir er að ósjálfbjarga fólk hefur þurft að búa við ofbeldi án þess að samfélagið hlutaðist til þeim til varnar.

Hvað Byrgið varðar hefur Félagsmálanefnd Alþingis þegar ályktað um skjótvirkar aðgerðir til aðstoðar fórnarlömbum og er von mín að allir hlutaðeigandi verði leitaðir uppi og allt fyrir þá gert. Hér á hið opinbera að gegna lykilhlutverki og verður að axla ábyrgð. Hana á ekki að láta Krossinum eftir. Við heyrðum í sjónvarpsfréttum að þar hefðu tveir fyrrum vistmenn Byrgisins fengið athvarf. Ég vona að þeir séu ekki samkynhneigðir. Þetta segir okkur eitt: Stjórnvöld hafa brugðist!

En hvað með drengina sem á sínum tíma dvöldu á Breiðavíkurheimilinu? Þá þarf að leita uppi – alla með tölu - og bjóða þeim alla þá aðstoð sem þeir kunna að þurfa á að halda. Ég skora á yfirvöld hjá ríki og sveitarfélögum að gangast í það verk þegar í stað. Nú er þörf á björgunarleiðangri. Það þarf að finna hina týndu og veita þeim alla þá aðhlynningu sem hugsast getur.