Fara í efni

TILRÆÐI VIÐ TJÁNINGARFRELSIÐ

Bændasamtökin tóku af skarið og úthýstu klámbisnismönnum, sem  ætluðu að koma til ráðstefnuhalds hingað til lands til að leggja á ráðin um hvernig efla megi klámiðnaðinn í heiminum. Viðbrögð þjóðfélagsins voru sterk og afgerandi. Reykjavíkurborg andmælti, Alþingi andmælti og Bændasamtökin tóku síðan af skarið og lokuðu dyrum Bændahallarinnar/Hótel Sögu. Þessir aðilar eiga allir lof skilið.
Ekki mun þetta þó hafa gerst af sjálfu sér. Nokkrar kraftmiklar konur tóku frumkvæðið strax og fréttir bárust af fyrirhuguðu ráðstefnuhaldi og létu þá þegar frá sér heyra.
Nú hefur komið í ljós að þessar konur hafa orðið fyrir ofsóknum og níðskrifum vegna framgöngu sinnar í þessu máli, einkum á netinu.
Þessi skrif hafa tekið á sig mjög ljótar myndir. Þannig mun hafa verið haft í hótunum um að þær kynnu að verða beittar ofbeldi ef þær létu ekki af andófi sínu. Það er grafalvarlegt mál. Það er ekki aðeins meiðandi fyrir viðkomandi einstaklinga heldur er þetta beinlínis tilræði við tjáningarfreslið í landinu. Ef svo er komið að fólki leyfist ekki að hafa skoðun og berjast fyrir henni á opinn og heiðarlegan hátt án þess að verða fyrir ofbeldisfullum árásum þá er ástæða til að hafa alvarlegar áhyggjur af lýðræðinu í landi okkar. Það má aldrei gerast að ofbeldismenn fæli fólk frá lýðræðislegri umræðu um umdeild mál. Samfélagið þarf að slá skjaldborg um þá einstaklinga sem sæta ofsóknum af þessu tagi. Þeir sem gerst hafa sekir að þessu leyti eiga hins vegar  að biðjast opinberlega afsökunar. Ella á að sækja þá til saka.