Fara í efni

FLOTT HALLA !

Ég skal játa að þegar Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður og knattspyrnukona með meiru, fékk aðeins örfá atkvæði í nýlegu formannskjöri til Knattspyrnusambands Íslands fyrir skömmu þá kom það mér á óvart og olli mér vonbrigðum, ekki hennar vegna heldur vegna KSÍ, sem mér fannst vera að fara á mis við tækifæri til þess að sækja inn í nýjar lendur með þessari kraftmiklu konu.
Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir meðframbjóðendum Höllu Gunnarsdóttur. Þegar ég svo horfði á Höllu í Kastljósþættti Evu Maríu í kvöld fann ég að hún var þrátt fyrir allt sigurvegari þessara kosninga. Bæði breytti hún einhverju með framboði sínu – hún skilaði áfangasigri í baráttu kvenna – okkur fannst mörgum hún vera eftirsóknarverður frambjóðandi í þessu gamla karlavígi  -  og auk þess er ég sannfærður um að Halla Gunnarsdóttir hefur með málflutningi sínum og baráttu sáð í jarðveginn og að hún muni uppskera þegar þar að kemur: "Þetta er bara rétt að byrja – þetta er barátta sem heldur áfram – að bera út fagnaðarerindið sem fótboltinn er." Þessi barátta snýst í huga Höllu ekki um Höllu. Heldur um að allir fái að njóta íþróttarinnar, strákar og stelpur, karlar og konur. Þannig skildi ég viðmælanda Evu Maríu í Kastljósi kvöldsins.
Það er þessi hugsun um frelsið sem höfðar til mín. Frelsisþrána segir Halla Gunnarsdóttir vera þann drifkraft sem knýi sig áfram og hún leggur þar áherslu á kvenfrelsisbaráttu, frelsi kvenna til að stjórna lífi sínu: "...það er þessi mikla frelsisþrá, að allir eigi að hafa þetta mikla frelsi, frelsi til að velja, að konur verði frjálsar." Sammála.
Kastljósið er HÉR.