Fara í efni

FRAMSÓKN OG SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR EINKAVÆÐA ENN

Framkvæmdanefnd ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem boðuð er sala á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Tekið er skýrt fram að þetta eigi að verða alvöru einkavæðing – að hlutur ríkisins megi ekki hafna hjá almannafyrirtæki eða stofnun. Í textanum segir: " Loks mega íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu...ekki bjóða í eignarhlut íslenska ríkisins. Sama gildir um dótturfélög framangreindra fyrirtækja og önnur félög þar sem þau fara með yfirráð í skilningi samkeppnislaga."
Ljóst er að nýr eigandi gæti verið sterkur fjárfestir eða fyrirtæki hvar sem er á hinu Evrópska efnahagssvæði,  þess vegna fyrirtæki í orkubransanum. Hvað með Norsk Hydro? Væri það ekki tilvalið, eða hvað?

Eftirfarandi spurningar vakna:

1) Er það réttlætanlegt að ríkisstjórn taki umdeilda ákvörðun sem þessa í blálokin á kjörtímabili sínu?

2) Hvernig skýrir Framsóknarflokkurinn nýlegar yfirlýsingar um að ekki standi til að einkavæða orkugeirann?

3) Hvers vegna er haldið út á þessa braut þegar hver skýrslan á fætur annarri sýnir hve slæmt það hefur reynst skattborgurum og neytendum að einkavæða grunnþjónustu?

Hér að neðan er fréttatilkynnig Framkvæmdanefndar um einkavæðingu og síðan  lagatexti sem nefndin vísar í.  

 FRÉTTATILKYNNING

Tilhögun sölu á 15,2% eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu í umboði fjármálaráðherra, hefur auglýst tilhögun sölu á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf. Um er að ræða 15,203% af heildar hlutafé félagsins að nafnverði 1.133.356.000 krónur.

Söluferlið verður tvíþætt. Þeir aðilar sem hafa hug á að bjóða í eignarhlutinn skulu lýsa yfir þeim áhuga sínum eigi síðar en kl. 16:00, þann 2. apríl nk. Þurfa þeir að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. Tilboðsgjafi skal uppfylla skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 34/1991, um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi, til fjárfestinga í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar orkuvinnslu og orkudreifingu.

2. Eignarhluturinn verður eingöngu seldur í einu lagi til eins aðila, þ.e. einstaklings eða lögaðila.

3. Tilboðsgjafi verður að sýna fram á fjárhagslegan styrkleika til að efna kaupin, hvort sem er með eigin fé eða annars konar fjármögnun.

4.Loks mega íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu, þ.e. þau félög sem stunda starfsemi sem fellur undir raforkulög nr. 65/2003, ekki bjóða í eignarhlut íslenska ríkisins. Sama gildir um dótturfélög framangreindra fyrirtækja og önnur félög þar sem þau fara með yfirráð í skilningi samkeppnislaga.

Þeir sem uppfylla skilyrðin geta tekið þátt í seinni umferð söluferlisins, þar sem kostur gefst á kynningu á fyrirtækinu og nánari upplýsingum um söluferlið. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu vekur athygli á að samkvæmt samþykktum Hitaveitu Suðurnesja hf. á félagið sjálft og núverandi hluthafar forkaupsrétt að eignarhlutunum. Stefnt er að því að söluferlinu ljúki í lok aprílmánuðar.

FNE hefur ráðið Capacent ehf sem ráðgjafa nefndarinnar við sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf. Hægt er að nálgast ýmis gögn um Hitaveitu Suðurnesja hf. og söluferlið á vefslóðinni www.capacent.is/hs

Nánari upplýsingar veita Stefán Jón Friðriksson hjá fjármálaráðuneyti og Þórhallur Vilhjálmsson hjá forsætisráðuneyti.

Reykjavík, 7. mars 2007

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu.

-------

2. töluliður 1. mgr. laga nr. 34/1991, um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi: Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. [Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum.]....