GESTUR, DV, GUÐRÚN ÁGÚSTA...ER HINUM SAMA?

Mér finnst DV eiga lof skilið fyrir að birta grein Gests Svavarssonar sem birtist í Morgunpósti VG í fyrradag og var vísað til hér á síðunni í gær. Þar reifar Gestur  málefni sem eru kjarnlæg fyrir lýðræðið. Hann vekur athygli á því að stjórnmálmenn setji skorður við því að fyrirtæki reyni að hafa áhrif á afstöðu pólitískra flokka með því að reyna að kaupa þá með fjárframlögum til fylgilags við sig. Á sama tíma horfi menn hins vegar aðgerðalausir og orðlausir upp á álrisann Alcan ausa fjármagni til að hafa áhrif á lýðræðislega kosningu í Hafnarfirði!
Þetta er hárrétt ábending hjá Gesti Svavarssyni. Sannast sagna finnst mér merkilegt að fjölmiðlar skuli þegja - nema DV. Ég hefði haldið að  fjölmiðlar sýndu þessu áhuga - ég leyfi mér að fullyrða að fyrir þrjátíu árum hefði þjóðfélagið logað stafna á milli vegna þessarar frekju og yfirgangs álrisans. Eða skyldi Þjóðviljinn sálugi ekki haft eitthvað við þetta að athuga?
Nú kemur einnig á daginn að Alcan stendur í bréfaskriftum við bæjarstjóra í Hafnarfirði með afriti til forætisráðherra með uppnuminni sjálfsmæringarrolllu. Auðvitað má þetta fyrirtæki skrifa sín bréf að vild - en ætlar íslenskt samfélag ekkert að bregðast við? Sem betur fer er að finna viðbrögð í Hafnarfirði. Þar er sem betur fer enn til fólk með heitt blóð. Það sýndi þriðji maður á lista VG í Kraganum, Gestur Svavarsson, með ofangreindum baráttuskrifum sínum. Hér að neðan er svo bókun kröftugs oddvita VG í bæjarstjórn Hafnarfjarðar - hinnar sömu og ritar grein á síðu mína í dag í Frjálsum pennum - Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur. Í bókuninni fjallar Ágústa Gurðrún um upphafningarskrif álrisans:

Bókun
Í tilefni af yfirlýsingum í bréfi forstjóra Alcan Primary Metal Group, til bæjarstjóra Hafnarfjarðar, með samriti til stjórnar Alcan og forsætisráðherra, um stöðu fyrirtækisins sem íslensks fyrirmyndarfyrirtækis getur bæjarfulltrúi Vinstri grænna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar ekki komist hjá því að velta fyrir sér siðferðilegri ábyrgð fyrirtækisins. Ef fyrirtæki ætlar að hreykja sér af því að vera slíkt fyrirmyndarfyritæki þá hlýtur að fylgja slíkri nafnbót aukin siðferðileg ábyrgð. Samhliða yfirlýsingu forstjórans eyðir fyrirtækið hundruðum milljóna til að hafa áhrif á lýðræðislega ákvörðun hér í Hafnarfirði. Ekki getur það nú talist til fyrirmyndar.
Á sama tíma og fyrirtækið hreykir sér af því að vera í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismál þakka þeir fyrir tillögur bæjarins um að velja hagkvæmustu leiðina fyrir orkulínur fyrir orkuflutning vegna stækkunar álbræðslunnar. Það að velja hagkvæmustu leiðina fyrir fyrirtækið og hlaða niður háspennuskógi frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi og frá Hellisheiði til Straumsvíkur getur ekki farið saman við að vera í fararbroddi í umhverfis- og heilbrigðismálum.
Af þessu sést vel hversu nauðsynlegt það er að reyna að jafna aðstöðumun grasrótarsamtaka gagnvart erlendum auðhring. Nýverið voru samþykkt á Íslandi lög um að framlög til stjórnmálaflokka frá Íslenskum fyrirtækjum mættu ekki fara yfir 300.000 krónur. Alcan er örugglega komið nálægt hundraðfaldri þeirri tölu í tilraun sinni til að hafa áhrif á viðhorf kjósenda.
Er nóg að skapa íbúum aðstöðu til að segja sína skoðun í atkvæðagreiðslu? Þarf ekki að fylgja að íbúalýðræðið verði ekki með jafn ójöfnum og ólýðræðislegum hætti og gera á hér í Hafnarfirði?
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði

Fréttabréf