KRAFA HAFNFIRÐINGS: ALCAN LÁTI OKKUR Í FRIÐI !

Gestur Svavarsson skrifar í dag grein í Morgunpóst VG, sem verður að fá umræðu í þjóðfélaginu. Greinin nefnist Svört tíðindi í sögu lýðræðis. Í greininni vekur Gestur athygli á því að stjórnmálamenn séu uppteknir af því að setja stjórnmálaflokkum skorður um leyfilegan fjárhagsstuðning fyrirtækja. Ég tek undir þá hugsun sem fram kemur hjá Gesti að lýðræðið eigi að vera fjármagninu yfirsterkara og að ákvarðanir í samfélaginu megi aldrei ganga kaupum og sölum. En hvað gerist nú? Gestur Svavarsson segir: "Sá sögulegi atburður hefur nefnilega orðið á Íslandi, sennilega í fyrsta sinn, að purkunarlaust er notað fjármagn erlendra auðhringa til þess að hafa áhrif á viðhorf kjósenda. Athæfið er fullkomlega siðlaust og skammarlegt. Hvar annars staðar finnast sambærileg dæmi þess að þeir sem eiga hagsmuna að gæta troði sér - með góðu eða illu - inn í samfélagið eins og Alcan gerir nú í Hafnarfirði? Nú nýverið voru samþykkt á Íslandi lög um að framlög til stjórnmálaflokka frá íslenskum fyrirtækjum mættu ekki fara yfir 300.000 krónur. Ég held að Alcan sé komið vel nálægt hundraðfaldri þeirri tölu, eða muni gera áður en yfir lýkur. Hegðun fyrirtækisins ber vott um ósvífni, yfirgang og siðleysi sem ætti ekki að líðast í nokkru einasta sómakæru fyrirtæki. Ég fer þess vegna fram á að Alcan fari út úr kosningabaráttunni, dragi sig til baka með alla sína milljarða - og láti Hafnfirðinga í friði."

HÉR er grein Gests Svavarssonar. Um er að ræða grafalvarlegt mál. Ég tel ekki of djúpt í árinni tekið að tala um tilræði við lýðræðið í landinu. Ég hvet fjölmiðla að gefa gaum að þeirri kröfu Gests Svavarssonar að Alcan dragi sig þegar í stað út úr kosningabaráttunni í Hafnarfirði!

Fréttabréf