Fara í efni

ÖRLAGARÍK KOSNING Í HAFNARFIRÐI


Í dag ganga Hafnfirðingar að kjörborðinu og greiða atkvæði um kröfu álrisans Alcans að fá land í Hafnarfirði til að geta næstum þrefaldað umfang núverandi verksmiðju. Gangi þetta eftir munu Hafnfirðingar sitja uppi með stærstu álverksmiðju í Evrópu innan bæjarmarka sinna á svæði sem ella myndi nýtast undir byggð og aðra atvinnustarfsemi.
Það væri dapurlegt í meira lagi ef álrisinn næði sínu fram. Yfirgangurinn hefur verið með ólíkindum. Álrisinn hefur verið látinn komast upp með að ausa fé í kosningabaráttuna; bæjaryfirvöld í Hafnarfirði  hafa því miður ekki orðið við óskum um að févana grasrótarsamtökum – Sól í Straumi – yrði veittur myndarlegur stuðningur til mótvægis auðhringnum.
Ríkisstjórnin hefur látið óátalið frekleg afskipti álrisans af lýðræðislegum kosningum í Hafnarfirði og minnir það óþægilega á undirgefni svokallaðra bananaríkja gagnvart auðhringum sem tekið hafa sér bólfestu á þeirra landi. En það er ekki einu sinni svo gott að ríkisstjórnin þegi. Hún tekur beinlínis þátt í áróðri Alcans, bæði beint og óbeint. Runólfur skrifar stórgott bréf til síðunnar sem ég hvet alla til að lesa. Hann setur viðhafnarveislu Alcoa á Reyðarfirði í dag í samhengi sem vert er að leiða hugann að.
Runólfur segir m.a.: "Eitt það athyglisverðasta er einmitt það sem gerist þennan dag á Reyðarfirði og í Hafnarfirði; veruleikinn undirstrikar samstöðu auðhringanna hvað sem þeir heita. Þar með er innsiglað bræðralag sem getur orðið  fleirum dýrt en Framsóknarflokknum. Ef Hafnfirðingar hafna stækkun og kjósa Hafnarfjörð í staðinn þá er brotinn álhringur sem annars læsist um landið allt. Úrslitin í kvöld hafa landsþýðingu og munu auk þess  hafa áhrif á  áform allra annarra auðhringa sem síðar meir munu leita til Íslands. Í dag halda Hafnfirðingar á heiðri Íslands."
Bréf Runólfs er HÉR