Fara í efni

ÞVÍ MEIRA ÁL ÞVÍ MINNA AF ÖÐRU

Birtist í Morgunblaðinu 30.03.07.
ÞAÐ er ekki ýkja langt síðan að ég var fylgjandi því að álframleiðendum á Íslandi yrði heimilað að stækka við sig. Í árslok 1995, fyrir rúmum áratug, fór fram atkvæðagreiðsla á Alþingi um stækkun álversins í Straumsvík. Ég var í hópi þeirra sem studdi heimildina fyrir aukinni orkusölu til álversins. Ég setti fram fyrirvara um mengunarvarnir en sagði jafnframt: "Það verður svo ekki fram hjá því horft að þessi framkvæmd mun skipta miklu máli fyrir atvinnulíf þjóðarinnar og atvinnustigið í landinu. Sönnunarbyrði er þar af leiðandi mikil, ætli menn að hafna þessum samningi. Þar sem þetta fer saman við þá staðreynd að hér er fyrst og fremst verið að fjalla um orkusölu og skatta, þá hef ég ákveðið að segja já."
Nú bregður svo við að ég er andvígur stækkun sama álvers. Hvers vegna?

Allt aðrar aðstæður

Í fyrsta lagi eru aðstæður allt aðrar á Íslandi nú en fyrir 12 árum. Þá voru framleidd 90 þúsund tonn af áli í landinu. Nú eru komnar heimildir fyrir 916 þúsund tonnum og yrði talan 1.106 þúsund tonn ef Alcan í Straumsvík fengi sínu framgengt! Læt ég þá ótalin áformuð álver á Húsavík og í Helguvík. Á það er að líta að þau rök sem áður voru sett fram um að við ættum ekki að reiða okkur um of á sjávarútveginn, hafa ekki öll eggin í sömu körfunni, eru nú að snúast upp í andhverfu sína. Nú eru menn að setja öll eggin í álkörfu! Árið 1995 var heildarframleiðsla raforku 4.650 GWst, þar af sala til stóriðju 2.391 GWst. Árið 2005 var heildarframleiðsla raforku 7.647 GWst, þar af til stóriðju 5.193 GWst. Eftir að stjórnvöld ákváðu að gera álframleiðslu að uppistöðuatvinnuvegi á Íslandi með stórfelldum virkjunum hefur mönnum orðið sífellt ljósara hve takmörkuð auðlind orkan raunverulega er. Fjölgar í hópi þeirra sem ekki vilja binda þá orku sem við virkjum marga áratugi fram í tímann til stóriðju. Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar stefnir í að raforkusala til stóriðju verði 9.793 GWst eða u.þ.b. 80% af áætlaðri 12.200 GWst heildarframleiðslu raforku.

Virðisaukinn meiri í öðrum atvinnugreinum

 

Í öðru lagi hefur komið á daginn að virðisaukinn fyrir álframleiðslu er mun minni en í öðrum atvinnugreinum. Við álframleiðslu í eigu erlendra aðila má gera ráð fyrir að aðeins um 30% af tilkostnaðinum við þessa starfsemi verði eftir í okkar hagkerfi, raforkusalan, vinnulaun, þjónusta og skattar. Í sjávarútvegi er þetta hlutfall talið vera um 80% og í ferðaþjónustu um 70%. Í ýmsum hátæknistörfum er þetta hlutfall einnig mög hátt. Álframleiðsla á Íslandi er þannig ekki arðvænleg atvinnugrein miðað við ýmsa aðra kosti.
Þegar horft er til annarra atvinnugreina þarf að hafa í huga að álframleiðslan er ekki hlutlaus gagnvart þeim. Það hefur sýnt sig að framkvæmdir tengdar stækkun álvera valda illkynja þenslu, keyra fjármagnskostnað upp en það bitnar á öllum atvinnurekstri í landinu og heimilunum að sjálfsögðu. Þessi ruðningsáhrif eru verulega skaðleg. Við verðum að horfa á þessa staðreynd af mikilli yfirvegun og raunsæi. Þetta snýst um að velja og hafna: Því meira ál, því minna af öðru!

Örlagarík ákvörðun

 

Svæðið við Straumsvík er tvímælalaust eitt fegursta byggingarland á öllu Faxaflóasvæðinu. Vilja menn hefta stækkunarmöguleika Hafnarfjarðar til suðurs vegna stækkunar álvers?
Ljóst er að verði af stækkun álversins mun mengun aukast umtalsvert og mun það skerða möguleika fyrir íbúabyggð og annan atvinnurekstur.
Viljum við heimila nánast þreföldun álversins í Straumsvík þannig að úr verði eitt stærsta álver í Evrópu; inni í byggð sem í ofanálag er þéttbýl og á sér mikla vaxtarmöguleika? Ákvörðun um að heimila stækkun álvers Alcans er því örlagarík ákvörðun.
Ég fjalla hér ekki um umhverfisþátt þessa máls í víðu samhengi. Það má aldrei gleymast, ekki eitt andartak, að því umfangsmeiri sem stóriðjan verður á Íslandi þeim mun meira verðum við að virkja og þá hugsanlega fórna dýrmætum náttúruperlum. Spurningin er svo einnig hin hvort við séum aflögufær til erlendra risafyrirtækja. Komum við ekki til með að eiga nóg með okkur sjálf þegar litið er til næstu áratuga?
Þetta eru meginástæður þess að ég leggst gegn því að veita álverinu í Straumsvík heimild til að færa út kvíarnar.