Fara í efni

VILDU LÖGÞVINGA VEGAGERÐINA TIL AÐ EINKAVÆÐA ALLA STARFSEMI SÍNA!

Á síðustu dögum og klukkutímum þinghaldsins hefur verið tekist á um ýmis mál og tókst stjórnarandstöðunni að koma í veg fyrir samþykkt nokkurra mjög umdeildra mála og knýja fram breytingar á öðrum. Eitt þeirra mála sem þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs tókst að knýja fram breytingar á eru ný Vegalög. Þar er sitthvað ágætt að finna, annað síðra og sumt afleitt. Það lýtur að heimildum til einkaframkvæmdar og gjaldtöku.

Makalausasta ákvæðið var þó að finna í 4. grein frumvarpsins þar sem sagði: "Vegagerðin skal við framkvæmd vegamála leitast við að bjóða út alla hönnun, nýbyggingar, viðhald, þjónustu og eftirlit." Takið eftir, hún skal svo fremi sem kostur er einkavæða. Ekki bara sumt, heldur allt. Ekki gerir VG athugasemdir við heimildir til handa Vegagerðinni að bjóða út einstök verkefni og framkvæmdir. Ef svona ákvæði væri hins vegar sett í lög væri hægt að kæra Vegagerðina fyrir að bjóða ekki út starfsemi sem fyrirtæki á markaði sæktust eftir. Þau hefðu á grundvelli þessa lagaákvæðis getað knúið Vegagerðina  til þess að láta af hendi verkefni sem hún  nú sinnir.

Í greinargerð með ákvæðinu segir: að þetta "nýmæli" í lögunum sé " í takt við þróun og þykir rétt að um slíka framtíðarsýn sé kveðið á í lögum."

Já það er nefnilega það. Okkur er sagt að þetta sé í takt við þróun! Það er vissulega rétt að í þessa átt vill Sjálfstæðisflokkurinn þróa samfélagið. Grafa undan samfélagsþjónustunni og veikja þar með byggðir landsins.

Þetta hefði nefnilega getað þýtt að þjónustukjarnar VR á landsbyggðinni hefðu lagst af. Hefði mönnum þótt það heppilegt þróun? Eða þeim sem misst hefðu atvinnu sína á ýmsum sviðum hjá VR.

Þegar öll hönnun, allt eftirlit og allt viðhald hefði verið einkavætt má spyrja hvort ekki væri líklegt að starfsemin leitaði til stærstu þéttbýlisstaðanna, annars vegar á Reykjavíkursvæðinu og hins vegar á Akureyri?  Það gerðist þegar Rafmagnseftirlitið var einkavætt. Þá fengu sérhæfð fyrirtæki á höfðuborgarsvæðinu eftirlitið í sínar hendur. Ekki var samkeppni fyrir að fara því við tók einkavædd einokun. Var það góð þróun?

VG fékk því áorkað að hið umdeilda ákvæði var fellt brott. Það var vissulega ágæt þróun í þá átt að gera gallað frumvarp skárra.