Fara í efni

VILJUM VIÐ STJÓRNARSKRÁ SEM ENGINN SKILUR?

Hópar lögfræðinga liggja nú yfir stjórnarskrártexta þeirra Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins og Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins. Sérfræðingar hagsmunasamtaka gera slíkt hið sama. Það liggur við að maður hafi séð Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóra LÍÚ klóra sér í höfðinu í útvarpsfréttum í gær þegar hann sagði að þar á bæ væru menn að reyna að átta sig á því hvort stjórnarskrárbreytingartillaga Geirs/Jóns væri til þess fallin að styrkja kvótakerfið eða veikja.
Þetta þarf engum að koma á óvart. Bæði er texti tillögunnar sjálfrar óljós og þegar greinargerðin sem fylgir henni er skoðuð kemur í ljós harla undarlegur kokteill. Þannig er eitt staðhæft og síðan dregið í land, jafnvel hið gagnstæða fullyrt. Engu er líkara en Geir hafi fengið fyrstu setninguna, síðan Jón þá næstu til að draga til baka það sem Geir sagði!
Eftir lesturinn og eftir að hlýða á rök og útleggingar lögspekinga komst ég að þeirri niðurstöðu að tillaga þeirra félaga sé til þess fallin að skjóta undir kvótakerfið stjórnarskrár vörðum rétti gagnstætt því sem okkur er sagt að vekti fyrir tillöguhöfundum. Eða hvað?
Niðurstaðan er þegar allt kemur til alls kvótahöfum í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að skapi og skulum við ekki gleyma því að ljósmæður kvótakerfisins komu úr þessum flokkum.
Annars á að nálgast þessa umræðu af mikilli alvöru. Atvinnuvegirnir og þá ekki síst sjávarútvegur, verða að búa við festu og stöðugleika. Framtíðin þarf að vera fyrirsjáanleg. Þess vegna hafa tillögur VG um breytingar á fiskveiðistjórnunarkefinu byggt á langtímahugsun en engum heljarstökkum og kollhnísum þótt markmið okkar séu skýr: Auðlindirnar skulu vera í þjóðareign.
Sama á að gilda um breytingar á Stjórnarskrá Íslands. Þær á ekki að afgreiða eins og ríkisstjórnin leggur til – með hraðsuðu á svefndrukkinni uppskrift eftir tvo þrjá næturfundi þeirra Geirs/Jóns.
Stjórnarandstaðan hefur boðist til að lengja þingið og vinna verkið af þeirri vandvirkni og virðingu sem sýna á stjórnskipunarlögum íslenka lýðveldisins.
Eftir slíka vinnu má ætla að fyrir liggi texti sem hverju barni er auðskilinn. Þannig á Stjórnarskrá Íslands að vera: Skýr og skilmerkileg. Hugsanlega mætti skrifa slíkan texta á fimm mínútum. En þá þyrftu menn líka að vera sammála um að vilja raunverulega tryggja auðlindirnar í þjóðareigu. Það vakir hins vegar hvorki fyrir Sjálfstæðisflokki né Framsóknarflokki. Það er vandinn.