SKÁTAMESSA OG NESHRINGURINN


Á sumardaginn fyrsta fer ég jafnan í skátamessu í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Mér finnst þetta tilheyra sumardeginum fyrsta og jafnframt geri ég þetta í minningu föður míns Jónasar B. Jónssonar, sem um langt árabil var skátahöfðingi og bar hag skátahreyfingarinnar ætíð fyrir brjósti. Það geri ég líka. Og sumardagurinn fyrsti minnir á starf skátanna.
Margrét Tómasdóttir, skátahöfðingi, flutti ræðu og minntist atburða frá liðinni öld en í ár eru einmitt hundrað ár frá stofnun skátahreyfingarinnar. Það var Baden Powell sem stofnaði til hennar m.a. til að finna villuráfandi æsku í austurhluta Lundúna og öðrum stórborgum Bretlands uppbyggileg verkefni í skipulagðri æskulýðsstarfsemi. "Er nokkuð síður þörf á slíku starfi í dag," spurði Margrét Tómasdóttir, og þétt setin kirkjan kinkaði kolli.
Margrét Tómasdóttir, skátahöfðingi, minntist þess að fljótlega eftir stofnun skátafélaga hér á landi hefði sr. Friðrik Friðriksson farið með skátaflokk, Væringja, um götur Reykjavíkur, á sumardaginn fyrsta að því er mér skildist, syngjandi sálma á latínu! Einhvern veginn var þessi frásögn - eða öllu heldur svipmynd - sem brugðið var upp sérlega grípandi vegna stórbrunans í Austurstræti í gær þar sem gömul hús brunnu, þar á meðal hús sem á sínum tíma hýsti stiftamtmann, Trampe greifa og Jörund hundadagakonung, Landsyfirréttinn og síðan skemmtistaðinn Pravda! Með öðrum orðum, hús með sögu. Reyndar svo langa sögu að húsið var rúmlega aldar gamalt þegar Væringjar séra Friðriks sungu sína latnesku sálma úti fyrir því árið 1913.

Seinni partinn þáði ég boð Kristínar Þorsteinsdóttur að ganga um Seltjarnarnesið undir leiðsögn hennar. Kristín hefur opnað fyrirtæki sem ber nafnið NESHRINGURINN og mun það sérhæfa sig í þjónustu við ferðamenn. Fyrirtækið var formlega opnað í dag með göngu um Seltjarnarnesið. Í fréttatilkyningu sem send var út af því tilefni segir m.a.:
"Í hugum margra svefnbær en þegar betur er að gáð kemur í ljós spennandi náttúra, einstakt útsýni, athyglisverð saga og fallegir staðir. Stutt fjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur gerir það að spennandi möguleika fyrir ferðamenn að kynnast nesinu í göngu með fararstjórn. Gangan tekur um tvær klukkustundir og að henni lokinni er gott að fara í sundlaug Seltjarnarness og hvíla lúin bein í heitum potti..." Slóð á heimasíðu Neshringsins er www.simnet.is/verde

Mynd hér að ofan er frá göngunni um Seltjarnarnesið þegar staðnæmst var við Kviku sem er útilistaverk sem hægt er að dýfa í fótum. Verkið, sem er eftir Ólöfu Nordal, stendur á Kisuklöppum í fjörunni við Norðurströnd og er óvenjulegt að því leyti að gestir og gangandi geta baðað fætur sína í því. Verkið er gert úr heilum grágrýtissteini sem í er sorfin hringlaga fótbaðs- eða vaðlaug. Laugin er lýst upp með mildu rafljósi að innanverðu og í hana rennur stöðugt óblandað, forkælt jarðhitavatn úr borholum Seltjarnarness, en vatnið hefur einstaka efnasamsetningu og þykir hafa sérstaka eiginleika. Myndin hér að neðan sýnir hluta gönguhópsins þegar staðnæmst var á Valhúsarhæðinni. Kristín Þorsteinsdóttir er önnur frá vinstri á myndinni.
Göngutúrinn var mjög fróðlegur og stórskemmtilegur. Til hamingju Seltirningar með framtak Kristínar Þorsteinsdóttur. Megi fyrirtæki hennar eiga bjarta framtíð. 
 

  

Fréttabréf