Fara í efni

ÞAÐ ER OKKAR AÐ VELJA


Í áhrifaríkri útvarpspredikun sunnudaginn 29. apríl vék séra Gunnþór Ingason, prestur í Hafnarfirði að þeim átakamálum sem setja svip á stjórnmálaátök líðandi stundar. Séra Gunnþór varpaði fram þeim spurningum sem fólk hljóti að velta fyrir sér.  Annars vegar velferðarmálum og hins vegar umhverfismálum. Hann segir m.a.: "Geta frambjóðendur til komandi alþingiskosninga veitt þeim annað og meira en gyllivonir? Hverju má treysta í stefnuyfirlýsingum þeirra um lífsvernd og bættan hag?
Verður gætt að misskiptingu kjara og fátækum sinnt, sem týnst hafa í velferðinni og verður brugðist raunhæft við ógnandi umhverfisvá? Upplýsingar skortir ekki um hag og kjör, auð og örbyrgð, verðbréf og vísitölur, og líka veðurhorfur og ástand loftshjúpsins.  Glæný skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna dregur það óvéfengjanlega fram, að lofthjúps- og loftslagsbreytingar, sem orðið hafa  á síðustu áratugum, orsakist af losun koltvísýrings og annarra svonefndra gróðurhúsalofttegunda.
-Al Gore fyrrum varaforseti  Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi fjallar um þetta efni í spámannlegum fyrirlestrum og kvikmynd sinni, Inconvenient Truth,, Óþægilegum sannleika.” Þar afhjúpar hann varasamar breytingar á vistkerfi jarðar og sýnir m.a. með því bregða upp myndum, af fyrri tíð og nú, hvernig jöklar hopa og ísbreiður pólanna minnka og eyðimerkur stækka, vegna hlýnunar lofthjúpsins.  Rithöfundurinn og Pulitzerverðlaunahafinn, Jared Diamond, tekur í sama streng í nýrri bók sinni, Collapse, ,,Hrun.” Þar lýsir hann því, hvernig þjóðfélög velja beinlínis ófarnað eða velfarnað..."

Er þetta ekki mergurinn málsins? Valið er okkar. Í Alþingiskosningum veljum við hvaða áherslur við viljum hafa við landsstjórnina á komandi árum. Áherslurnar sem nú er tekist á um er hvort áfram eigi að halda á braut stórvirkjana fyrir mengandi stóriðju eða búa í haginn fyrir fjölbreytt atvinnulíf. Það er líka tekist á um velferðarmál; hvort útrýma eigi fátækt og draga úr misskiptingu í þjóðfélaginu. Kjósendur þekkja afstöðu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Eftirfarandi er predikun séra Gunnþórs Ingasonar í heild sinni.
Sjá Hér

 

    ,,Gæskan er öflugri en illskan”

     Prédikun 3. s.d. e. páska 29. apríl 2007.

    Flutt í Hafnarfjarðarkirkju og útvarpað

  

Lexía: Davíðssálmur: 26. Pistill: 2. Kor: 4. 14-18.

        Guðspjall: Jóh. 14.1-11.

Bæn. Himneski faðir. Þökk fyrir vorið bjarta og upprisu og páskaljóma. Gef að við höndlum gleði og fegurð þeirra á veginum til lífsins sanna í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með okkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sól rís á lofti og hefur kveikt vor á nýju sumri með birtu- og ylgeislum sínum. ,,Tveir gulbrúnir fuglar /flugu yfir bláhvíta auðnina. /Tvö örlítil titrandi blóm/ teygðu rauðgul höfuð sín/ upp úr svartri moldinni. /-Tvö fölleit, fátækleg börn/ leiddust út hrjóstruga ströndina/ og hvísluðu í feiminni undrun,/ út í flöktandi ljósið:/ Vor, vor! “

Þetta ljúfa ljóð Steins Steinars höndlar titrandi fæðingarundur nýss vors, fögnuð fugla, blóma og fölleitra og fátæklegra barna. Vor gefur öllu lífi   endurnýjaða von, líka fátækum börnum, sem leiðast á hrjóstrugri strönd og kemur til móts við hikandi og feimna þrá í brjósti þeirra um lífsfyllingu og gleði.

En hvar sjá þau örugg leiðarmerki á veginum fram? 

Geta frambjóðendur til komandi alþingiskosninga veitt þeim annað og meira en gyllivonir?
Hverju má treysta í stefnuyfirlýsingum þeirra um lífsvernd og bættan hag?
Verður gætt að misskiptingu kjara og fátækum sinnt, sem týnst hafa í velferðinni og verður brugðist raunhæft við ógnandi umhverfisvá? Upplýsingar skortir ekki um hag og kjör, auð og örbyrgð, verðbréf og vísitölur, og líka veðurhorfur og ástand loftshjúpsins.  Glæný skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna dregur það óvéfengjanlega fram, að lofthjúps- og loftslagsbreytingar, sem orðið hafa  á síðustu áratugum, orsakist af losun koltvísýrings og annarra svonefndra gróðurhúsalofttegunda.

-Al Gore fyrrum varaforseti  Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi fjallar um þetta efni í spámannlegum fyrirlestrum og kvikmynd sinni, Inconvenient Truth,, Óþægilegum sannleika.” Þar afhjúpar hann varasamar breytingar á vistkerfi jarðar og sýnir m.a. með því bregða upp myndum, af fyrri tíð og nú, hvernig jöklar hopa og ísbreiður pólanna minnka og eyðimerkur stækka, vegna hlýnunar lofthjúpsins.  Rithöfundurinn og Pulitzerverðlaunahafinn, Jared Diamond, tekur í sama streng í nýrri bók sinni, Collapse, ,,Hrun.”
Þar lýsir hann því, hvernig þjóðfélög velja beinlínis ófarnað eða velfarnað. Hann tekur þar dæmi af horfnum samfélögum, sem gættu ekki að náttúrulegum lífsgrunni sínum og grófu undan velferð sinni með skammsýni eða fáfræði. Hann ályktar og heldur fram að ólíkt því, sem áður var, þegar eyðinging var staðbundin, sé öll heimsbyggðin í hættu. ,,Nú stendur yfir kapphlaup eyðingaraflanna og heilbrigðrar skynsemi,  segir hann, og úrslitin verða ljós á næstu áratugum.” Svo sláandi lýsingar á yfirvofandi ógnum vekja annað hvort óhug og skelfingu eða virka svo yfirþyrmandi, að þær lama viðbrögð og skyn,  svo að framhjá þeim er litið, sem hæpnum áróðri og ósönnum fullyrðingum. En viðbrögðin verða þó að vera önnur og raunhæfari og sækja sér þrótt í lífsins lindir,  skapandi virkni Guðs sjálfs, orð hans og ljós.
-Orð frelsarans takmarkast ekki við þann tíma og söguskeið, sem þau lýsa heldur spanna öll tímaskeið. Máttug orð hans í Guðspjalli dagsins tala því inn í einstök kvíðaefni okkar og einnig umhverfisvá og skefingarefni, sem í víðara samhengi valda ótta og öryggisleysi. Orðin eru ein þau innihaldsríkustu sem Nýja Testamentið geymir. Jesús mælir þau eftir að hafa þvegið fætur lærisveina sinna, á skírdagskvöldi, sem sýnikennslu eða gjörning í auðmjúkri umhyggjusemi og fórnandi kærleika. ,,Eins og ég hefi elskað yður,  skuluð þér einnig elska hver annan”, segir hann síðan. Orð hans á þessari kveðjustundu voru samt mörg hver ill skiljanleg og fjarstæðukennd og virtust marklaus með öllu, þegar hann var handtekinn, kvalinn og krossfestur.. ,,Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.” Þau orð eru sem yfirskrift á öllu erindi Jesú jafnt við upphaf jarðnesks ferils hans, þegar englar sögðu skelfdum hirðum að óttast ekki, og eins þegar sú leið er á enda á sýnilegu sjónarsviði og krossinn framundan. Upprisa Jesú og gjöf anda hans af hæðum sýna réttmæti þesssarar eindregnu trúarhvatningar. Skelfingarefnin, illskan, ranglætið og miskunnarleysið, kvöl og kross víkja fyrir græðandi upprisulindum, sem streyma fram í Jesú nafni.
,,Hjarta yðar skelfist ekki ”, segir hann, því að lamandi ótti, örvænting og dauðaangist eru öndverð lifandi trú, sem er vitandi og virkt samband við Guð.  Mannsbarn, sem er þjakað af ótta, fær ekki þrifist. Það er heft og hæfileikar þess blómgast ekki.  En reyni það strax, þegar það nær andanum í gráti, sem er sefaður með hlýjum faðmi og nærandi móðurbrjósti, að það er velkomið í heiminn, og elskað bæði á jörðu og himni, finnur það veginn rétta að himnesku lífstakmarki sínu. 

Hinn jarðneski heimur rúmar ekki allt sem er. Honum æðri og ofar er önnur veröld.  Jesús Kristur fer  í gegnum þau skil, sem á milli eru og leysir dauðans fjötra og býr þeim stað, í vistarverum föðurhúsa Guðs, sem vilja fylgja honum þangað.
Það er huggunarríkt að lesa ritningarorð dagsins við dánarbeð. Myndin úr Davíðssálminum af grátandi mönnum, sem bera sæði til sáningar en koma síðar aftur með gleðisöng, er þeir bera kornbundin heim, vísar til verka Guðs í sköpunarundrum og jafnframt lífs Guðsríkisins, sem vex í leyndum í trúuðum hjörtum. Orð postulans í pistli dagsins draga það enn skýrar fram. Þar segir hann berlega, að þrátt fyrir margs konar raunir, þrekleysi og hrörnun endurnýjast, fyrir trúna á Guð, dag frá degi vor innri maður, sem horfir móti ósýnilegri, en eilífri veröld hans. En hvernig eru himnesku vistarverurnar?
Við getum ekki svarað því. Ef til vill eru þær hverdagslegar, að minnsta kosti til að byrja með, enda líður okkur best þannig. Fimmtu bekkjar börn úr einum grunnskóla Hafnafjarðar komu í fyrradag til að skoða þessa kirkju og Strandberg, safnaðarheimili hennar. Og í lokin sýndi ég þeim Stafn,  fagra bátslaga kapellu þess. Sólargeislar skína inn í hana gegnum lúkarsglugga á þaki, og altaristafla kapellunnar í ljósum viði niður úr gluggaopinu myndar líkt og geisla.  Hliðargeislar ganga út fra honum og eru sem stigi báðum megin.
Ég sagði börnunum, að stiginn í altaristöflunni minnti á stigann, sem sagt er frá í Gamla Testamentinu, að ættfaðirinn Jakob hafi dreymt. Í hughreystandi draumi sá hann engla fara upp og niður stiga, sem tengdi jörð og himinn.  
Þá rétti drengur upp hönd, og sagði svo einlæglega frá því, að hann hefði dreymt áþekkan draum og séð í honum látinn afa sinn, sem hafði verið kokkur á sjó, koma niður til sín í stiga og englar með honum, og hann hefði leitt sig upp og inn í káetu, eins og á skipi hans forðum og gefið sér þar dýrindis grjónagraut eins og hann hafði svo oft gert áður.
- Kross Jesú Krists minnir á himnastigann en er þó fremur sem útbreiddur faðmur fórnandi kærleika Guðs, sem sameinar veraldir og heima. Eftirtektarvert er, að það er sem svar við hiki og efasemdum Tómasar, sem í einlægni játar óvissu sína um veginn, sem Jesús fer, að Jesús segir: ,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.”Og hann er það hvernig sem horfur eru og óhað þeim blikum, sem eru á lofti. Hann bendir ekki aðeins á veginn heldur er vegurinn er liggur frá dauða til lífs sem leiðarljos og innri drifkraftur í trúuðu hjarta.
,,Gegnum Jesú helgast hjarta/ í himininn upp ég líta má./ Guðs míns ástar birtu bjarta/ bæði fæ eg að reyna og sjá,” segir enda sr. Hallgrímur Pétursson og slær á rétta trúarstrengi sem jafnan á skáldhörpu sinni.  Og Jesús er sannleikurinn í þeim skilningi, að hann er rétti mælikvarði viðhorfa og gjörða. Og hann er lífið í dýpsta skilningi, því að hann og faðirinn himneski eru eitt, og miðla lífi sköpunar og endurfæðingar í heilögum anda sínum.  Jahkve, ,,Ég er”, hafði lifandi Guð sagt úr logandi þyrnirunni, þegar hann opinberaði Móse nafn sitt forðum. Hann einn getur sagt: Ég er, því að allt, sem hefur tilvist, þiggur veru og líf honum frá.  Með fyrrgreindum staðhæfingum um eðli og veru sína er Jesús að vísa til guðlegs uppruna síns.
Það er hinn krossfesti og upprisni Jesús Kristur, er lifað hefur á jörðu í áþreyfanlegri mynd og reynt þar þyngstu þrautir og dýpstu sár, sem opinberar Guð, og merkingu tilverunnar. Hann sem líknaði særðum og þjáðum og leitaði sem hirðirinn góði týndra og fallinna manna og taldi þá, sem réttlætið þrá  miskunn sýna og friðinn flytja, vera sæla og stefna réttan veg. 

 ,,Góði hirðirinn”. Svo nefnist eftirtektarverð kvikmynd, sem verið er að sýna í Reykjavík. Halda mætti, að hún fjallaði um Jesú, en svo er aldeilis ekki. Góði hirðirinn, sem vísað er til, er leyniþjónustan C. I. A. Aðalpersónan, leyniþjónustmaðurinn Wilson, er táknmynd fyrir hana.  Hann verður einn æðsti yfirmaður stofnunarinnar og telur sig vinna að því að bjarga heiminum og tryggja öryggi framtíðar, bæði á stríðstíma og í stórveldaerjum.  En vanrækt fjölskylda hans líður fyrir þau brýnu verkefni,  fögur og ástrík eiginkona og sonur þeirra líka, sem þráir viðurkenningu og hlýju föður síns en fær lítil viðbrögð. Verkefni leyniþjónustunnar byggja á ótta og tortryggni. Blekkingar, svik, og manndráp leyfast á vegum hennar vegna háleitra hugsjóna um frelsið.
En frelsisdraumar í fátækum löndum eru þó kæfðir í fæðingu, ef þeir fá ekki framrás á frelsisbrautum fjármagns og auðhyggju. Og vinir reynast óvinir og óvinir vinir í þessum kónglóarvef undirferla og leynimakks. -Þetta er enginn hasarmynd en mun vera raunsönn í lýsingum sínum á refilstigum leyniþjónustu- og sérsveitarstarfa. Það er vonandi tímanna tákna, að afhjúpandi myndir eins og ,,Góði hirðirinn” og ,,Óþægilegur sannleikur”, Al Gore séu gerðar og sýndar.  Þær votta löngun og þrá til uppgjörs og iðrunar, sem viðurkennir misfellur og ranga stefnu og leitar nýrra leiða. Og sú þrá endurómar víða. ,Í tónlist minni er ákveðinn boðskapur,” segir tónlistarmaðurinn og farandsöngvarinn góði K.K. í blaðaviðtali,  kærleikboðskapur, sem byggir á réttlætiskennd.

Sá boðkapur myndi missa gildi sitt, ef ég væri á mála hjá banka eða stórfyrirtækjum. Ég vil ekki fara þá leið, ég vil leita að sannleikanum. Ég veit um leið, að sannleikurinn er ekki eitthvað eitt. Hann er eins og regnbogi, sem ber marga liti eða kannski eins og litíkur fugl. –Þetta  er vel sagt, enda sést vera og virkni hin sanna Guðs í fjölbreytri fegurð lífsins, þó margt skyggi á hana. Arðsemi hlutbréfa og eigna trygga ekki farnað lífsins. En þau verðmæti gætu orðið skiptimynt varanlegrar auðlegðar, ef þau nýttust til að bæta úr ófarnaði, neyð og skorti.   Græðgi stuðlar að umhverfisvá og er í andstöðu við ábyrg og fórnfús lífsviðhorf , sem gæta að hag mannlífs og náttúru.

Tekist hefur að draga það mjög úr losun ósoneyðandi efna, að verndandi ósonlag lofthjúpsins er ekki rofið sem fyrr. Til þess að hamla yfirvofandi hörmungum fyrir vistkerfi jarðar verður að takast að draga á sama hátt úr hættulegum gróðurhúsaáhrifum.
Í því felst von og bjartsýni um farsæla framtíð, að eindreginn vilji, skilningur og samstillt átak, stutt Guðsvitund, von og trú, fái áorkað þessu. Með heilnæmu og ómenguðu andrúmslofti,  stórfenglegri fegurð sinni og fölbreyttum náttúrumyndum og varkárri, skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu auðlinda sinna, gæti Ísland og Íslensk þjóð verið táknmynd þessarar góðu vonar og öðrum þjóðum fyrirmynd. ,,Gæskan er öflugri en illskan,/ ástin gegn hatrinu fer/  Ljósgeislinn lýsir upp myrkrið,/ lífið af dauðanum ber”, var sungið hér áðan. Frumtextinn er eftir Desmond Tutu biskup og mannréttindafrömuðinn þekkta frá Suður -Afríku og lagið eftir John Bell, einn af forvígismönnum, Iona hreyfingarinnar í Skotlandi, sem í keltneskum anda leggur áherslu á áþreyfanlega, jarðneska kristni og berst eindregið fyrir félagslegu réttlæti, lífsvernd og virðingu.

Vegurinn að himneskum vistarverum liggur aldrei framhjá þrautum og vanda sýnilegs lífs heldur að kviku þess og kjarna, því að vegurinn er Jesús Kristur og fórnandi elska hans, sem fær farvegu í góðhug, næmri samvisku og kærleiksríku hjarta og þeim kjarki, sem afneitar sinnu- og dáðleysi og gengur fram fyrir skjöldu til að vernda og fegra jarðlíf, svo að það gagntakist varanlegu og sönnu upprisulífi hans.

Fátæk börn, sem leiðast á hrjóstrugri strönd, geta glaðst yfir nýsköpun vors, örugg um tilveru sína og framtíð, berist blær anda hans og lífs til þeirra í vakandi von, fagnandi trú og fórnandi og umskapandi elsku. 
-Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. -Amen-.

                                                                                                Soli Deo Gloria

                          Gunnþór Ingason