Fara í efni

UPPLÝST Í BORGARSTJÓRN: RÍKISSTJÓRNIN HEFUR EKKI SINNT LÖGBOÐNUM SKYLDUM Í BARNAVERNDARMÁLUM

Fyrir stuttu síðan flutti Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi VG, í Reykjavík mjög athyglisverða ræðu í borgarstjórn sem ég er hissa á að rataði ekki inn í fjölmiðla því mjög alvarlegar ávirðingar í garð stjórnvalda komu þar fram. Í ræðu sinni benti Þorleifur á að ríkisstjórnin hefur ekki fullnægt lagalegum skyldum sínum á sviði barnaverndarmála um nokkurt árabil. Þrátt fyrir alla umræðuna um kynferðislegt og annað ofbeldi gagnvart börnum, þrátt fyrir að fram hafi komið að tilkynningum til barnaverndaryfirvalda í Reykjavík hafi fjölgað um 10% ári undanfarin fimm ár - um 27% á einu ári 2005-2006! -  virðist hafa ríkt fullkomið andvarlaeysi og doði hjá ríkisstjórninni. Ekki er einu sinni sinnt lögboðnum skyldum.
Í ræðu sinni hrósaði Þorleifur Gunnlaugsson starfsfólki sem sinnir þessum málum hjá ríki og Reykjavíkurborg en gagnrýndi harkalega hvernig að þessari starfsemi væri búið.
Ég skora á fjölmiðla að kynna sér það sem fram kom í máli varaborgarfulltrúans um þetta efni. Sjálfur hef ég leitað eftir staðfestingu félagsmálaráðuneytisins um að lögboðnum skyldum ríkisstjórnarinnar á sviði barnaverndarmála hafi ekki verið fullnægt og geri því orð Þorleifs Gunnlaugssonar að mínum..
 Eftrifarandi er brot úr ræðu Þorleifs en hann kvaðst hafa farið að kafa ofan í málin vegna þess hve honum þótti pottur vera brotinn í þessum efnum hjá Reykjavíkurborg og talaði hann um hringlandahátt í því sambandi:

"Þegar betur er að gáð er mönnum samt þó nokkur vorkunn, því nú er ljóst að mesti hringlandahátturinn ríkir hjá þeim að aðila sem ber ábyrgð á málaflokknum, það er að segja félagsmálaráðuneytnu. Í 5. gr. barnaverndarlaga frá 2002 segir um hlutverk Félagsmálaráðuneytisins...
:„Félagsmálaráðuneytið ber ábyrgð á stefnumótun í barnavernd.“ og
„Ráðherra leggur fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum.“ Nú er staðan sú þegar eftir er grennslast að það er ekki til nein heildræn stefna í barnaverndarmálum. það er sama hversu djúpt er kafað, það hefur ekki verið mótuð stefna í barnaverndamálum á Íslandi. Lögin tóku gildi rúmum hálfum mánuði eftir sveitastjórnarkosningar en samt var ekki farið í mótun framkvæmdaáætlunar til næstu fjögurra ára. Hafi menn þurft tíma, er spurning hvers vegna ekki var farið í að móta framkvæmdaáætlun   eftir sveitastjórnakosningar 2006.  Það ég best veit hefur framkvæmdaráætlun skv. 5. gr. laga nr. 80/2002 ekki verið gefin út af hálfu félagsmálaráðuneytisins og lögð fyrir Alþingi.  Hvað þá að félagsmálaráðuneytið hafi unnið og lagt fram stefnumótum að heildarstefnu  um barnaverndarmál.

Og kem ég þá aftur að skýrslunni sem ég nefndi áðan „Aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis“ sem þegar til kom reyndist ákaflega forvitnileg og mikilvægt innlegg í þessa umræðu því veigamikill þáttur skýrslunnar fjallar  um barnavernd.

Tilurð þess að farið var í þessa vinnu var sú mikla athygli sem bók um Telmu Ásdísardóttir og það ofbeldi sem hún, systur hennar og móðir urðu fyrir, vakti á sínum tíma.

Í fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu frá 29. september 2006 segir með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 26. september sl. aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis sem tekur til áranna 2006 til 2011…Aðgerðaáætlunin skiptist í tvo hluta: Aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn börnum. Aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn konum…Um er að ræða efnismikla aðgerðaáætlun sem felur í sér 37 aðgerðir. Hverri aðgerð er lýst sérstaklega ásamt tilgangi hennar. Einstökum ráðuneytum hefur verið falin ábyrgð á framkvæmd sérhverrar aðgerðar ásamt því að settur er fram tiltekinn tímarammi um framkvæmdina.“

Þarna var greinilega um viðamikla og vandaða vinnu að ræða. Ákveðnar eru 37 aðgerðir og sett tímamörk við hverja þeirra. Af þessum 37 aðgerðum eru 21 sem tilheyra barnaverndarmálum. Sumar þessara aðgerða eiga að vera hafnar en eftir því sem ég kemst næst hefur lítið sem ekkert verið gert í þeim efnum. Þetta er í samræmi við upplýsingar sem ég aflaði mér hjá barnaverndarstofu að ekki sjáist í fjárlögum nein merki þess að leggja eigi fé í aðgerðirnar. Verkefnum er dreift á fjögur ráðuneyti en enginn er í starfa við að samræma og fylgja málum eftir í heild sinni. Og það er til marks um áhugaleysi félagsmálaráðherra að enginn starfsmaður í ráðuneyti hans er sérstaklega að sinna barnaverndarmálum eins og er og þannig hefur það verið síðan í haust.

Er þetta kannski dæmi um þá hræsni sem oft virðist ríkja um mál sem þessi. Í þessu tilfelli steig hetjan Telma Ásdísardóttir fram á sviði og lýsti harmsögu æsku sinnar á það áhrifamikinn hátt að enginn varð ósnortinn. Krafan um fyrirbyggjandi aðgerir varð svo hávær og frumkvæði frjálsara félagsamtaka það serkt að sett var af stað vinna sem skilaði metnaðarfullri aðgerðaráætlun, samþykktri á ríkistjórnarfundi og þrír félagsmálaráðherrar Framsóknarflokksins hafa flaggað síðan sem skrautfjöður. En það virðist ekkert vera að gerast og enginn vottur um að það eigi að hrinda áætluninni í framkvæmd. Þrátt fyri þetta hefur að sjálfsögðu margt gott verið gert í barnaverndarmálum á Íslandi undanfarin ár. Starfsfólk barnavernda um allt land, sem flest er bæði vel fagmenntað og hugsjónafólk upp til hópa, vinnur gott starf. Oft við gríðarlega erfiðar aðstæður. Barnahús er nú orðið fyrirmynd margra þjóða og menn flykkjast til landsins til að kynna sér starfsemi þess.

Vinnuálagið er mikið og þrátt fyri það að tilkynningum hafi fjölgað um 10% á ári undanfarin 5 ár. Fjármagn ríkisins til málaflokksins hefur staðið í stað eða jafnvel verið að minnka og það ég best get séð og til að mynda hefur meðferðaheimilum Barnaverndarstofu verið fækkað um 2 á þessu tímabili. Starfsmenn barnavernda eru margir að kikna undan álaginu og metnaðarleysi ríkisins er ekki til að bæta stemninguna. Barnaverndarstarfi á Íslandi hefur verið líkt við slökkviliðstarf   þar sem fólk heldur um slönguna og beinir henni að stærsta bálinu á meðan eldar loga út um allt.

Barnavernd Reykjavíkur er mönnuð góðu fólki og að ég best veit hefur hún uppfyllt lagalegar skyldur sínar um 4. ára framkvæmdaáætlanir. Í það minnsta var slíkt til fyrir síðasta kjörtímabil. En eldarnir brenna mest hér og ástandið  virðist vera verst hér á höfuðborgarsvæðinu .

Í fréttum Ríkisútvarpsins þann 12. apríl síðastliðinn var skýrt frá því að á einu ári, það er að segja frá 2005 – 2006, var 27% aukning á tilkynningum til barnaverndar Reykjavíkur og að á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hefur aukningin orðið 20% á miðað við sömu mánuði í fyrra...."