Fara í efni

ERU PRENTMIÐLARNIR AÐ SÆKJA Í SIG VEÐRIÐ?


Gengi íslenskra dagblaða hefur verið sveiflukennt. Ég er alinn upp við blaðaútgáfu sem endurspeglaði fjórflokkinn: Mogginn var blað Sjálfstæðisflokksins, Þjóðviljinn Alþýðubandalagsins, Alþýðublaðið var málgagn Alþýðuflokksins og Tíminn Framsóknarflokksins. Síðan voru vikublöð, Mánudagsblaðið fyrr á tíð og Helgarpósturinn og síðan Pressan svo eftirminnilegustu blöðin séu nefnd. Þegar komið var fram á níunda áratug síðustu aldar fór að bera meira á gagnrýni á flokksmálgögnin. Fólk vildi það sem kallað var “málefnaleg” fréttablöð en ekki “pólitísk”. Fljótlega fór gamla kerfið að riðlast, Tíminn varð að NT tímabundið og enn síðar að Degi, Mogginn staðhæfði að hann væri ópólitískur í fréttaskrifum og stæði öllum skoðunum opinn og úr öðrum ritstjórnarskrifstofum heyrðust svipuð hljóð. Ekki má gleyma Vísi og DV sem alla tíð kváðust vera óháð fréttablöð. Landsbyggðablöðin eru heldur ekki ný af nálinni þótt það sé ekki fyrr en á síðari árum að þau fara að styrkjast til muna.

Að mörgu leyti var þessi gamla pólitíska dagblaðaflóra fjörug og kraftmikil. Pólitík er nefnilega í eðli sínu “málefnaleg”. Á blöðunum starfaði fjöldinn allur af mjög góðum pennum og fyrir mitt leyti fannst mér hin pólitíska umræða flokksmálgagnanna skemmtilegri og kraftmeiri en "fagmennska" síðari tíma sem er alltof oft ekki metnaðarfyllri en svo að menn rétt gára yfirborð hlutanna. Ég held að með sanni megi segja að með brotthvarfi flokksmálgagnanna hafi horfið ákveðin snerpa úr þjóðmálaumræðunni.

Ég er ekki alveg frá því að dagblaðaflóran sé nú heldur að sækja í sig veðrið. Morgunblaðið ber enn ægishjálm yfir önnur blöð og gerir marga hluti vel. Morgunblaðið og Ríkisútvarpið hafa staðið menningarvaktina og í slíkum efnum hefur blaðið oft verið á dýptina. Þá tekur Mogginn iðulega fyrir mál af festu og fylgir þeim eftir, sbr. kvótakerfið og spilafíknina. Morgunblaðið gerist hins vegar óafsakanlega flokkspólitískt í aðdraganda kosninga. Ég er í sjálfu sér ekki andvígur því að fjölmiðlar taki pólitíska afstöðu, en þeir eiga þá ekki að gefa sig út fyrir að vera annað en pólitísk málgögn. Að þessu leyti villir Morgunblaðið á sér heimildir - alla vega þegar dregur að kosningum. Morgunblaðið á það líka til að þegja um mál.
Blaðið er enn að sumu leyti óskrifað blað. Það hefur stundum átt góða spretti, greinilega oft fengið til liðs við sig öflugt fólk. Blaðið virðist ætla að feta í fótspor Moggans og taka einstök mál fyrir. Hér þarf þó að vanda vel til verka. Óneitanlega er undarlegt að fylgjast með áhuga Blaðsins þessa dagana á hertri löggæslu. Njósnir og greiningardeildir þykja Blaðinu vera mál málanna nú þessa blíðu sumardaga. Enda þótt ég sé því fylgjandi að styrkja og efla löggæsluna í landinu þarf að stíga mjög varlega til jarðar þegar eftirlit með borgurunum er annars vegar og þurfa fjölmiðlar að standa þar varúðarvaktina fyrir hönd lýðræðisþjóðfélagsins.
DV undir ritstjórn Sigurjóns Egilssonar virðist ætla að gera sig mjög vel. DV sækir í sig veðrið jafnt og þétt og lofar góðu.
Sama er að segja um Viðskiptablaðið sem er að verða ómissandi blað, vandað og skemmtilegt aflestrar.
Fréttablaðið er að öðlast virðulegan sess og spái ég því að það eigi eftir að sigla upp að Mogga sem stabíll fjölmiðill þótt enn sé langt í land að Fréttablaðið hafi sömu burði og Morgunblaðið. Fréttablaðið hefur oft tekið ágæta spretti, t.d. í orkumálum, utanríkismálum og varðandi einkavæðingu. Þetta hefur þó verið komið undir einstökum fréttamönnum frekar en að blaðið hafi enn sem komið er skapað sér sess hvað þetta snertir.

Góðar, djúpar og gagnrýnar fréttaskýringar eru of fáar í íslenskum dagblöðum og aðhaldið sem þau veita eftir því. Þannig heyrðist varla múkk þegar ríkisstjórnin veitti auðhringnum Bechtel, einhverjum alræmdasta umhverfissóða heimsins, sérstök umhverfisverðlaun því fyrirtækið hefði staðið sig svo vel á Reyðarfirði. (sjá HÉR). Sjóndeildarhringur umhverfisráðherrans náði ekki út fyrir Ísland. Svo tala menn um alþjóðavæðingu! Einkavinavæðingin hefði líka þurft miklu meira aðhald af hálfu fjölmiðla, aðild okkar að Íraksstríðinu fékk takmarkaða umfjöllun og einskorðaðist um of við ummæli sem féllu hér innanlands, svo nokkur dæmi séu nefnd. Síðan er það náttúrlega Landsvirkjun og orkugreirinn sem hefði þurft að fá miklu gagnrýnni umfjöllun en raun ber vitni. Þá er okkur veitt alltof takmörkuð innsýn í þau átök sem eiga sér stað víðs vegar um heiminn í tengslum við einkavæðingu og ásælni auðhringa í eignir almennings. Við skulum ekki gleyma því að Íslendingar hafa þar beina aðkomu  sem fjárfestar og þannig sem gerendur en einnig koma fulltrúar okkar að stjórn þeirra alþjóðastofnana sem setja leikreglurnar á heimsvísu, svo sem Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sjaldan er fylgst með því hvað “okkar fólk” segir í ræðuhöldum á þeim bæjum.(Sbr. HÉR)
Á þessu öllu eru þó undantekningar. Fjölmiðlungar á íslenskum prentmiðlum hafa oft átt mjög góða spretti og gert margt afbragðsvel. Ég ítreka að ég er almennt bjartsýnn á að prentmiðlarnir séu að styrkjast nú um stundir. Ég vona að ég reynist þar sannspár. Öflugir fjölmiðlar eru ein af grunnstoðum opins lýðræðisþjóðfélags. Gengi þeirra skiptir okkur öll því miklu máli.