Fara í efni

STÓRKOSTLEG STUND Í BOÐI BSRB Í MUNAÐARNESI!


Í dag var haldin menningarhátíð í Munaðarnesi. Opnuð var sýning á myndlist Guðbjargar Hákonardóttur, Guggu, en verk hennar verða til sýnis í allt sumar í félagsmiðstöð orlofsbyggða BSRB í Munaðarnesi. Þar rekur Ásta Hrönn Stefánsdóttir veitingastað með glæsibrag og er óhætt að mæla með honum. Á menningarhátíðinni las Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur úr verkum sínum við afar góðar undirtektir og þrjár stórkostlegar tónlistarkonur léku fyrir hátíðargesti töfrandi tónlist. Það voru þær Auður Hafsteinsdóttir, sem lék á fiðlu, Bryndís Halla Gylfadóttir á selló og Steinunn Birna Ragnarsdóttir á píanó. Vel á annað hundrað manns sóttu hátíðina sem mæltist afar vel fyrir. Ég hef verið á þessum menningarhátíðum frá upphafi og er ánægjulegt að sjá sömu andlitin ár eftir ár ásamt nýjum gestum. Margir úr nærliggjandi sveitum hafa greinilega gert að vana sínum að sækja menningarhátíðir BSRB hverju sinni og er gott til þess að hugsa.

Verk Guggu eru afar góð og hvet ég fólk til að koma við í Munaðarnesi á veitingasölu Ástu Hrannar og skoða myndlist hennar. Ekki kæmi mér á óvart að myndlistarsýningarnar í Munaðarnesi séu einhverjar fjölsóttustu myndlistarsýningar landsins – svona þegar upp er staðið og sumarið á enda runnið!
Njótið vel í boði BSRB.