Fara í efni

SUMARIÐ OG LANDIÐ

Dagskrá RÚV á þjóðhátíðardaginn, hinn 17. júní minnir á hvers megnugt Ríkisútvarpið er og hefur verið í gegnum tíðina. Ég fylgdist aðallega með dagskrá Rásar eitt, Gufunnar gömlu. Þar var um að ræða blöndu af gömlu og nýju, tónlist með innlendum listamönnum, efni um listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson en dagskrárveislunni lauk með prýðilegum og fjölbreyttum Andrarímum. Á meðal eldra efnis var endurfluttur þáttur Gunnars Stefánssonar frá árinu 1997 með upplestri Andrésar Björnssonar, fyrrverandi útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Andrés Björnsson fór fyrir Ríkisútvarpinu í nær tvo áratugi. Andrés var mikill andans og menningarinnar maður og lyfti öllu því sem hann kom nærri á æðra plan. Þessi ágæti þáttur Gunnars Stefánssonar, Sumarið og landið, minnir á mikilvægi þess að hlú að íslenskri menningu og þeim gildum sem hún hvílir á. Ég er sannfærður um að gróskumikil og innihaldsrík menning er sá besti jarðvegur sem hugsast getur fyrir sköpunarkraft og frjóa hugsun með þjóðinni. Menningararfur þjóðarinnar hefur reynst henni gott vegarnesti – og án nokkurs efa er það varanlegra en fjárfestingargullið sem þessa stundina gnægð er af. Það var við hæfi að endurflytja þáttinn með Andrési Björnssyni á þjóðhátíðardaginn.
Þátturinn er Hér.