"ALLIR ÞEIR SEM FRÉTTASTOFAN TALAÐI VIÐ"


Þegar sparisjóðirnir voru settir á laggirnar á sínum tíma var það gert til að styrkja byggðarlög og samfélög. Einstaklingar lögðu fram fjármagn og urðu stofnfjáreigendur. Þetta var yfirleitt, ef ekki alltaf, gert af óeigingjörnum hug. Menn vildu byggja upp og styrkja það samfélag sem þeir voru sprottnir upp úr.
Síðan líður og bíður. Ekki fyrir svo ýkja löngu urðu ýmsir stofnfjáreigendur þess áskynja að gera mætti sér mat úr stofnfjárframlaginu langt umfram verðgildi þess. Braskarar fengu nú  - blod på tanden eins og Danskurinn segir.
Nú vildu margir selja. Hugjónir voru grafnar. Látum nöfn einstaklinga liggja á milli hluta. En niðurlæging margra annars mætra manna varð ekki lítil þegar í ljós kom hve smáir þeir urðu þegar eigin pyngja var annars vegar.
Nú stendur til að gera Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, að hlutafélagi. Ég skal játa að ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir hvað þetta hefur í för með sér og vil þess vegna fá innihaldsríka og gagnrýna umfjöllun um málið. Fréttastofa Sjónvarps sagði okkur í kvöld að allir þeir sem til var leitað teldu þetta jákvætt skref. En spyr sá sem ekki veit: Hverjir voru þessir allir? Hvað er það nákvæmlega sem er svona jákvætt? Er ef til vill eitthvað í þessu máli sem kann að orka tvímælis? Þurfa fréttastofurnar ekki að upplýsa okkur um hvað þarna raunverulega hangir á spýtunni? Við erum alltof lengi búin að horfa upp á handlangara eigin hagsmuna fara sínu fram án þess að þeir hafi þurft að skýra gjörðir sínar.
Um daginn voru tilfæringar og hræringar með Samvinnusjóðinn gamla. Fréttastofurnar fóru aldrei í saumana á því máli. Er það ekki hlutverk fjölmiðla að fara sjálfstætt ofan í mál af þessu tagi og skýra og skilgreina það sem raunverulega er að eiga sér stað?
Við höfum þurft að horfa upp á hrikalegar gripdeildir í þjóðfélaginu af hálfu valdhafa og gæðinga þeirra. Þar vísa ég til kvótakerfisins og einkavinavæðingarinnar sem hefur fært nokkrum vildarvinum valdhafa milljarða á milljarða ofan. Fjölmiðlar verða að taka sig saman í andlitinu og kafa sjálfir af ískaldri yfirvegun í álitamálin í stað þess að skýla sér á bak við ónafngreinda viðmælendur einn eða fleiri, eða eins og við fengum að heyra í kvöld "alla þá sem fréttastofan talaði við".

Fréttabréf