EINAR ODDUR KRISTJÁNSSON


Í dag var haldin í Hallgrímskirkju í Reykjavík minningarhátíð um Einar Odd Kristjánsson, alþingismann og fyrrum formann Vinnuveitendasambands Íslands. Um Einar á ég margar góðar minningar þótt ekki rérum við sama bátnum, hvorki á pólitískum ólgusjó né í stéttarfélagsátökum. Einar var í hinu líðnu. Engu að síður leit ég alltaf á hann sem góðan  félaga á öðrum og stærri vettvangi: Hann var góður félagi í íslenska þjóðfélaginu. Góður Íslendingur. Þannig kunni þjóðin að meta hann, sem góðan landa og félaga í mannlífinu. Eftirfarandi eru minningarorð um EOK sem ég fékk birt í Morgunblaðinu í dag:

Þjóðarsáttarsamningarnir svokölluðu, sem undirritaðir voru í upphafi árs 1990, áttu sér lengri aðdraganda en oft hefur verið haft á orði. Nánast allan níunda áratuginn höfðu staðið deilur innan verkalýðshreyfingarinnar á milli þeirra sem vildu leggja höfuðáherslu á að beisla verðlag og hinna sem ráku harða kaupgjaldskröfupólitík. Síðari hópurinn kom einkum úr röðum þeirra sem lutu ströngu kauptaxtakerfi og bjuggu því ekki við óbeislað launaskrið á þenslutímum. Það átti ekki síst við um opinbera starfsmenn.
Þjóðarsáttarsamningarnir voru samningar um verðlag. Með því að koma böndum á verðbólgu skyldi reynt að skapa grundvöll til kaupmáttaraukningar í framhaldinu. BSRB hafði fetað sig inn á þessa braut í kjarasamningum sem gerðir voru til skamms tíma vorið 1989. Þá þegar var um það rætt að gera tilraun sem næði til vinnumarkaðarins í heild í langtíma kjarasamningi - eins konar þjóðarsátt. Við þá samningssmíð varð Einar Oddur Kristjánsson, sem þá var formaður Vinnuveitendasambands Íslands, einn helstur arkitekta og verkstjóra. Og hann kunni vel til verka. Hann hafði glöggan skilning á umhverfi sínu, kunni skil á hinum sögulegu straumum og gerði sér grein fyrir því að engin þjóðarsátt yrði án þess að þorri þjóðarinnar kæmi þar að borði. Á þeirri hugsun hvíldi Þjóðarsáttin og þá hugsun er óhætt að eigna Einari Oddi flestum öðrum fremur. Á þessum tíma hófust okkar kynni en ég var þá nýorðinn formaður heildarsamtaka opinberra starfsmanna í BSRB.
Einar Oddur var mikill málafylgjumaður. Í samningum var hann laginn með afbrigðum. Að minni hyggju var lykillinn að velgengni hans sú virðing sem hann jafnan sýndi andstæðingum sínum. Það var ekki bara svo að hann gerði sér grein fyrir því að taka yrði tillit til sjónarmiða gagnaðilans í kjaradeilu ef samningar ættu að nást, heldur var mannvinsamleg afstaða honum eðlislæg. Hann var drenglundaður maður.
Mikill sjónarsviptir er að Einari Oddi Kristjánssyni, ekki aðeins fyrir Alþingi sem hefur verið hans starfsvettvangur síðustu ár heldur þjóðlífið allt. Hann setti svip á sína samtíð. Einars Odds Kristjánssonar verður sárt saknað. Þar mæli ég fyrir munn félaga minna í þingflokki VG. Ég færi fjölskyldu hans hugheilar samúðarkveðjur.
 

Fréttabréf