FRÉTTAMENNSKA Á DÝPTINA

Ekki líður mér úr minni eins konar kappræðufundur sem ég tók þátt í fyrir fáeinum árum í Háskóla Íslands en viðfangsefnið var fjármálageirinn og framtíðin. Þarna voru ungir spekúlantar úr fjármálalífinu, einn prófessor, ef ég man rétt, og síðan ég. Mitt hlutverk hygg ég að hafi átt að vera að halda uppi sjónarmiðum forneskjunnar gagnvart hinum "framfarasinnuðu" talsmönnum kapítalisma og gróðahyggju. Öll kynntum við okkur í upphafi fundar. Þá var það sem einn ungu mannanna kynnti sig sem fulltrúa "þekkingarkynslóðarinnar". Mig grunar að þekkingin hafi falist í því að kunna á þekkingaleitartæki samtímans: Netið. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri byltingu sem varð með tilkomu þekkingar- og upplýsingaöflunar á netinu. Vandinn er hins vegar sá að með því að skauta um netið og hlusta á fjölmiðla sem leggja sífellt meira upp úr hraða og fídusum er hætt við því að menn verði yfirborðsmennskunni að bráð - jafnvel þekkingarsnauðari en fyrri kynslóðir. Yfirborðsmennska er einmitt vandi nútíma fjölmiðlunar.

Á þessu eru til undantekningar. Í dag var til dæmis prýðilegur þáttur í umsjá Þorvaldar Friðrikssonar fréttamanns á RÚV. Fréttaþættirnir uppúr hádegi á laugardögum eru reyndar oft mjög áhugaverðir. Þar er að finna viðleitni til að fara undir yfirborðið og fjalla um málin á dýptina. Þetta er mikilvægt og á Þorvaldur og kollegar þakkir skyldar. Á meðal efnis í þættinum í dag var viðtal við Margréti Guðnadóttur prófessor um rannsóknir hennar á sjúkdómum í sauðfé bæði hér á landi og á Kýpur, tengsl visnurannsókna og eyðnirannsókna og hugsanlega bólusteningu við þessum sjúkdómum, sem annars vegar herja á sauðkindina, hins vegar mannskepnuna.
Þá var fjallað um álinn og lífríkið, einelti og pólitíkina í Tyrklandi, þar sem kosningar standa nú fyrir dyrum. Síðastnefndi þátturinn var í umsjá hins orðsnjalla Kristins R. Ólafssonar. Í Tyrklandi eru mikil og djúpstæð átök á milli trúmanna annars vegar og hins vegar þeirra sem byggja á pólitískri arfleifð Kemals Atatürks, forstumanns um stofnun lýðveldis í Tyrklandi eftir Heimstyrjöldina fyrri en þá voru sett skýr skil á milli ríkis og trúarbragða. Í Tyrklandi hefur herinn ekki látið stjórnmálin afskiptalaus frá þessum tíma og hafa margir nú sem oft áður, áhyggjur af hugsanlegu inngripi hersins. Um herinn í Tyrklandi sagði KRÓ að hann "vaki og vofi yfir lýðræðinu." Kristinn R. Ólafsson hefur einstakt lag á að segja mikið í fáum orðum.
Takk fyrir þáttinn Þorvaldur! 

Fréttabréf