Fara í efni

HVER ER SANNLEIKURINN UM EINKAVÆÐINGU RAFORKUGEIRANS?

DV birtir iðulega áhugaverðar greinar. Ein slík birtist síðastliðinn fimmtudag eftir Jóhann Hauksson, Morgunhanann á Útvarpi Sögu. Jóhann er gamalreyndur fréttamaður sem hefur orðið mikla hlustun þegar hann sjálfur veltir vöngum eða ræðir við aðra í fréttaviðtölum á Útvarpi Sögu.  
Í umræddri grein sinni í DV, sem fjallar um einkavæðingu raforkugeirans undir titlinum Vítin eru til að varast, segir Jóhann Hauksson m.a.: ""Tveir sænskir fræðimenn, Arne Kaijser og Per Högselius, skrifuðu í Dagens Nyheter um daginn, að sjaldan hefðu samfélagsbreytingar sætt jafn mikilli gagnrýni og hlutafélaga- og einkavæðing orkufyrirtækjanna þar í landi. Samkeppnisyfirvöld saka auk þess fyrirtækin þrjú, sem nú eiga 90 prósent orkuframleiðslunnar, um ólögmætt samráð. Rafmagnsverðið í Svíþjóð er hærra en nokkru sinni fyrr. Neytendurnir, ekki síst þeir sem reka iðnfyrirtæki, kvarta sáran yfir háu verði og mörg sveitarfélög sjá mjög eftir því að hafa selt eignarhluti sína í orkuframleiðslunni. Þeir einu sem ekki kvarta eru talsmenn orkurisanna þriggja. “Einkavæðing er annað og meira en að svipta almenning opinberum eignum sínum. Hún er yfirgripsmikið herbragð til þess að endurskipuleggja velferðarþjóðfélagið á varanlegan hátt í þágu auðmagnsins,” skrifaði breski sérfræðingurinn Dexter Whitfield eitt sinn í bók um almannaþjónustu eða fyrirtækjavelferð."
Mikið væri óskandi að fréttamenn færu virkilega í saumana á einkavæðingu raforkugeirans, brytu til mergjar reynsluna erlendis frá og vöruðu við þeim hættum sem eru uppi þegar einkavæðing almannaþjónustunnar er annars vegar. Það kann nefnilega að reynast mjög örlagaríkt að afhenda fjárfestum á markaði grunnþjónustu samfélagsins í hendur. Það er ekki auðveldlega aftur snúið ef það þá yfirleitt er gerlegt.
Ýmsir fjölmiðlar, þar á meðal fréttastofa RÚV, hafa sýnt málinu áhuga upp á síðkastið. Ég hvet fjölmiðlafólk til að kafa í málið og sannreyna sjálft allt það sem málsaðilar í deilunni um einkavæðingu almannaþjónustunnar hafa fram að færa. Sannleikurinn verður að koma í ljós – áður en allt er um seinan. Það eru nefnilega orð að sönnu sem segir í máltækinu: Of seint er að byrgja brunninn þegar  barnið er dottið ofan í hann.

-------
Sjá nánar um Jóhann Hauksson: http://www.morgunhaninn.is/
Nýleg umfjöllun hér á síðunni með tenglum á fyrri skrif þar sem m.a. er vísað í gagnrýni danskra verkfræðinga er HÉR.