Fara í efni

OKRIÐ MEIRA Á ÍBÚÐAKAUPENDUM!

Birtist í Morgunblaðinu 14.07.07.
Félagsmálaráðherra kom fram í fjölmiðlum til að tilkynna þjóðinni að með ákvörðun sinni um að lækka lánshlutfall íbúðalána úr 90% í 80% væri ríkisstjórnin að senda mikilvæg skilaboð til fjármálakerfisins og þjóðfélagsins í heild sinni. Hvað þýðir þetta? Hver eru þessi mikilvægu skilaboð?


Verulegar skerðingar

Í fyrsta lagi er rétt að leggja áherslu á að þessar hlutfallstölur segja aðeins hálfan sannleikann. Hámarkslán frá Íbúðalánasjóði eru nú 18 milljónir. Það eitt þýðir að íbúð má að hámarki kosta 22,5 milljónir til þess að kaupandi geti náð 80% hámarki. Samkvæmt auglýsingum eru fjögurra herbergja íbúðir á höfuðborgarsvæðinu nú seldar á um 30 milljónir króna. 18 milljóna króna lán er 60% af því. Lækkun lánshlutfallsins kemur að sjálfsögðu harðast niður á þeim sem eru tekjuminnst og glíma við að kaupa smæstu íbúðirnar. Kaupandi sem fékk 90% lán frá Íbúðalánasjóði til kaupa á 15 milljóna króna íbúð fékk að hámarki 13,5 milljónir króna en mun eftir síðustu breytingu ríkisstjórnarinnar fá að hámarki 12 milljónir. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar veldur því skertum lánamöguleikum hjá þessum aðila sem nema 1,5 milljónum! Hvernig á hann að fjármagna skerðinguna? Væntanlega með skammtímaláni með allt að 20% yfirdráttarvöxtum eða þá með því að taka lán með veði í eign ættingja sinna. Þetta þýðir á mannamáli aukna vaxtabyrði og meiri fjárútlát. Heggur sá er hlífa skyldi.

Fleiri sperrur

Ekki er sagan þar með sögð því að eitt skilyrðanna fyrir lánveitingum úr Íbúðalánasjóði er að lánið má ekki nema hærri upphæð en brunabótamati að viðbættu lóðarverði. Hér eru dæmi úr raunveruleikanum: Einstaklingur keypti nýlega íbúð á 17,3 milljónir. Brunabótamat þessarar íbúðar var 11,5 milljónir og lóðarmat 2 milljónir, samtals 13,5 milljónir. Í stað þess að fá 15,5 milljónir, sem er 90% af 17,3 milljónum, fékk viðkomandi aðeins 13,5 milljónir sem að sjálfsögðu var ekki neitt 90% lán heldur 78% lán. Annað dæmi úr raunveruleikanum: Íbúð var seld á 15,9 milljónir. Brunabótamat ásamt lóðarmati er 10,7 milljónir. Í stað þess að fá 14,3 milljónir fékk viðkomandi aðeins 10,7 milljónir sem er 67% lán.

Er hálf önnur milljón í vexti of lítið?

Með ákvörðun sinni nú er ríkisstjórnin að torvelda aðgang að lánum Íbúðalánasjóðs, sem getur bitnað hart á millitekjuhópunum. Þeim allra lægst launuðu hefur fyrir löngu verið úthýst af eignamarkaði vegna óheyrilega erfiðra lánskjara. Eða hafa menn hugleitt að 4,8% með uppgr. þókn. og 5,05% vextir (eins og lán Íbúðalánasjóðs bera) í 4% verðbólgu jafngilda u.þ.b. 9% nafnvöxtum sem svo aftur þýðir fjármagnskostnað upp á 1,35 milljónir kr. á ári af 15 milljón króna láni (ódýrasta kjallaraíbúð)? Samsvarandi kostnaður af 18 milljón króna láni eru 1,62 milljónir. Þetta þykir ríkisstjórninni ekki vera nóg, eða hvað?
Ekki verður önnur ályktun dregin af "hinum mikilvægu skilaboðum" félagsmálaráðherra til fjármálakerfisins og þjóðfélagsins í heild sinni. Með því að takmarka aðgang að lánum Íbúðalánasjóðs er fólki ýtt í ríkari mæli til bankanna sem bjóða lán á hærri vöxtum en Íbúðalánasjóður. Bankarnir tóku strax skilaboðum ráðherra og ríkisstjórnar fagnandi, fleiri kúnnar, hærri vextir! Forstjóri KB banka var mættur kampakátur í sjónvarp fáeinum klukkustundum eftir að félagsmálaráherra sendi út skilaboð ríkisstjórnarinnar til að skýra landsmönnum frá því að bankinn myndi að öllum líkindum hækka vexti sína fljótlega. Skilaboðin voru semsé meðtekin.

Einfeldningsleg skýring

Allt er þetta eflaust gert í þeirri trú að mikið framboð á lánsfjármagni á skaplegum lánskjörum þenji upp íbúðaverð. Það komi kaupendum síðan í koll. Þetta er afar einfeldningsleg skýring. Eða hvernig skyldi standa á hinum gríðarlega verðmismun á suðvesturhorninu annars vegar og víða í dreifbýlinu hins vegar? Hvernig skyldi standa á því að verð á íbúðum í "álbæjum" fer nú hækkandi, sbr. frásögn Blaðsins 6. júlí? Skyldu framboð og eftirspurn ekki ráða þarna einhverju? Þenslusvæðin þenja nefnilega jafnframt út verðlagið á húsnæði því alls staðar eru húsnæðislánin jafnhá. Reyndar eru þau rýmri víða í dreifðustu byggðunum – þar sem verðið er lægst – því þar er brunabótamat ekki sá þröskuldur sem það er á þenslusvæðunum þar sem markaðsverð er umfram brunabótamat.

Samfylking segir eitt en gerir annað

Niðurstaðan er þessi. Ríkisstjórnin telur að lánskjör íbúðalána séu of góð, það þurfi að takmarka aðgang að lánsfé á þeim "kostakjörum" sem Íbúðalánsjóður býður og hvetja bankana til að okra meira! Hvernig var það annars, er það ekki Samfylkingin sem tíðrætt hefur orðið um "Evrópuvexti"? En eru þeir ekki stórhættulegir? Er ekki stórhættulegt að lækka vextina, myndi íbúðaverð ekki margfaldast með þeim afleiðingum að enginn gæti keypt neitt, svo hátt yrði verðlagið? Samkvæmt skilaboðum félagsmálaráðherra og hvatningu um meira okur á íbúðakaupendum mætti halda að vaxtalækkun væri af hinu illa. Mikið væri annars gaman ef Samfylkingunni tækist að vera sjálfri sér samkvæm í málflutningi sínum, þó ekki væri nema í þessum málaflokki.