Fara í efni

AUÐMANNA-ANDAKTIN OG HIN HLIÐIN


Fyrirmyndin Filipus
Margir einstaklingar sem hafa komist yfir mikinn auð eru atorkumenn, dugnaðarforkar og frumkvöðlar. Aðrir eru það ekki; hafa fengið auðinn í hendur eftir vafasömum leiðum, jafnvel glæpsamlegum. Báðar tegundirnar þekkjum við hér á landi. Hér duga því engar alhæfingar.
Ein alhæfing á þó við: Ísland er að drukkna í auðmannadekri. Ég held ég sé ekki einn um að finna fyrir köfnunartilfinningu af andaktinni og lotningunni sem fjölmiðlar margir hverjir eru farnir að sýna pennigaauði.

Hver borgar?

Í vikunni sem leið valdi Fréttablaðið "bestu íslensku auðjöfrana". Þeir sem sigruðu voru að sjálfsögðu stoltir og hrærðir. Í sömu viku hélt Kaupþing-banki upp á afmæli sitt. Laugardalsvöllurinn var lagður undir – gervigólf sett á völlinn – flutt í gámum frá Wembley-leikvanginum í London. Það var ekki ódýrt sagði veislustjórinn. Ríkissjónvarpið ohf. var með beina útsendingu. Allt kvöldið. Landsbankinn var svo með Klambratúnið daginn eftir – stanslaust partý. Nógur peningur greinilega til enda báðir bankarnir nýbúnir að hækka vexti.  Um það var hins vegar lítið rætt í vikunni – fremur en endranær. Lítil eftirspurn að fá að vita hver borgar brúsann, eða er kannski ekki framboð á slíkum upplýsingum? Þeim mun meira fáum við að vita hvaða bankaeigandi eigi flottustu þotuna, fái dýrustu skemmtikraftana í afmælið sitt – Elton John í Reykjavík, eða einhvern ámóta í partý til Jamaica.

Fyrirmyndirnar

Þetta er ekkert séríslenskt. "Okkar menn" eiga sér nefnilega fyrirmyndir. Ekki veit ég hvernig hann Sir Philip Green myndi mælast í vinsældakosningu um geðþekkasta auðmanninn í Bretlandi. Ég veit hins vegar að hann myndi ekki mælast mjög hátt á Mauritius. Þannig er að Philip þessi er samkvæmt breska stórblaðinu Sunday Times sjöundi ríkasti maður Bretlands. Metinn á 5 milljarða sterlingspunda. Hann heldur að vísu til í Mónakó og borgar lítið sem ekkert í tekjuskatt. Aurunum sem hann ætti að telja fram í Bretlandi beinir hann í vasann á frúnni, henni lafði Tínu, í formi hlutabréfaarðs. Lafði Tina býr í skattaparadís og borgar því ekki skatta. Á árinu 2005 fékk lafði Tína 1,2 milljarð sterlingspunda í sinn hlut. Sunday Times reiknast til að það þýði 3,3 milljónir punda hvern dag allan ársins hring ( 452 milljónir ísl. kr.). Sir Philip er svoldið líkur okkar millum að því leyti að honum finnst gaman að vera smart á því. Þannig flaug hann með 100 vini sína til Maldív-eyja fyrr á árinu til að halda upp á 55 ára afmælið sitt. George Michael og Jennifer Lopez skemmtu gestum. 685 millur þar. Alvörugæi. Daily Mail segir reyndar að partíið hafi í heild kostað fjórum sinnum meira.

Hringir bjöllum?

Þessar upplýsingar hef ég annars sem áður segir úr Sunday Times (12. ágúst sbr. að neðan). En hvers vegna skyldi Sunday Times hafa verið að fjalla um flottheitin á Sir Philip Green? Jú, tilefnið var að segja okkur hvernig auður hans yrði til. Þannig er að Philip á samsteypuna Arcadia sem aftur á Topshop, Topman, Burton, Dorothy Perkins og Miss Selfridge. Einhverjum bjöllum klingir þetta eflaust hjá einhverjum. Nema hvað, fötin sem framleidd eru fyrir þessar fínu verslanir eru, samkvæmt Sunday Times, framleidd að einhverju eða öllu leyti í verksmiðjum á Mauritius. Þangað sé verkafólk flutt frá Bangladesh og Sri Lanka en þegar til Mauritius sé komið taki við 12 stunda vinnudagur þar sem unnið sé fyrir þetta 30 til 60 kr. á tímann. Á víxl unnið og sofið – að sjálfsgðu í fjöldarými. Allt fyrir Filipus og Tínu. Sunday Times talar um þrælahald.

Þrælahaldari í sól og sumaryl

Blaðafólki Sunday Times er nefnilega ekki skemmt. Það gekk hart að Sir Philip. Hann stóð hins vegar fastar en fótunum á því að öll hans framleiðsla væri samkvæmt ströngum siðferðisstöðlum. Hann hefði meira að segja nýlega rætt við fulltrúa sinn sem hefði kannað það sérstaklega hvort ekki væri allt í himnalagi og svo hefði sem betur fer verið. "En nú segið þið mér að einhverir brjóti regluranr án þess að hafa nokkrar skrúplur yfir því. Það verð ég að kanna."
Annars er það af Philip Green að segja að síðast þegar fréttist af honum var hann staddur á snekkju sinni, í sól og sumaryl, úti fyrir ströndum Tyrklands. Sunday Times hefur fyrir satt að hann láti mjög vel af sér, having a marvellous time.

Sjá Sunday Times HÉR
Sjá Daily Mail HÉR