Fara í efni

FALSKAN GÓM Á LAUGAVEGINN, EÐA...?

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, skrifar stórgóða grein í Morgunblaðið í dag um húsavernd og þau átök sem nú eru hafin um framtíð Laugavegarins og fleiri götur og hverfi í Reykjavík. Hann segir m.a. : "Eftir að verktakar og fjármálamenn komu auga á það að gamli miðbærinn í Reykjavík var orðinn eftirsóknarverðasti staðurinn á höfuðborgarsvæðinu til íbúabyggðar og atvinnurekstrar, einkum á sviði ferðamennsku og afþreyingar, hefur hafist ótrúlegt lóðabrask þar með það fyrir augum að rífa gömul hús og byggja ný. Spekúlantarnir virðast ekki skilja að í gömlu húsunum og sögu þeirra felast einmitt þau verðmæti sem gera miðbæinn eftirsóknarverðan og fjölbreyttan. Líklega kemur þeim það ekkert við því að flestir hugsa ekki um annað en að kaupa, byggja og selja. Því miður hefur borgaryfirvöldum ekki tekist að reisa rönd við þessum skammtímasjónarmiðum eða ekki viljað það. Þar er sáralitla fyrirstöðu að finna."

Sannfærandi rök Svandísar

Rétt. Alltof litla fyrirstöðu er þar að finna. En þar sem hana er að finna er hún kraftmikil og vísa ég þar til framgöngu Svandísar Svavarsdóttur, oddvita Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík en hún er jafnframt fulltrúi í skipulagsnefnd. Svandís hefur látið hressilega frá sér heyra og teflt fram sannfærandi rökum í þágu verndunar gamalla húsa sem geyma langa og oft merkilega sögu  eða eru "vinhlý og prúðmannleg" einsog Nóbelsskáldið komst að orði um Bernhöftstorfuna á sínum tíma.
Guðjón Friðriksson rifjar upp baráttuna um Bernhöftstorfuna frá byrjun 8. áratugar síðustu aldar:
" Mánudaginn 13. ágúst 2007 birtist leiðari í Fréttablaðinu með fyrirsögninni "Kúluna á kofana". Fyrir þá sem lengi eru búnir að berjast fyrir húsvernd í Reykjavík var eins og að hverfa marga áratugi aftur í tímann að lesa þessa ruddalegu fyrirsögn, hverfa aftur til áranna í kringum 1970 þegar sams konar viðhorf voru uppi gagnvart Bernhöftstorfunni og öðrum gömlum húsum og húsfriðunarbaráttu í árdaga. Erum við þá ekki lengra á veg komin?"

Brilljant Laxness

Í grein sinni rifjar Guðjón Friðriksson upp greinarskrif Nóbelskáldsins Halldórs Laxness sem blandaði sér í umræðuna um Bernhöftstorfuna á þann hátt að eftir var tekið – eins og öllu sem frá honum kom. Guðjón segir:
" Hinn 7. júlí 1971 sýndi Nóbelsskáldið Halldór Laxness hvern hug hann bar til Bernhöftstorfu. Þann dag birtist grein eftir hann í Morgunblaðinu sem nefndist "Brauð Reykjavíkur" og gæti hún eins átt við húsin Laugaveg 2 og 4 eins og þau eru nú. Þar stóð m.a.: "Á Bernhöftstorfunni standa enn fáein heldur lágreist hús. Ef ætti að brúka um þau lýsingarorð dytti manni helst í hug að kalla þau yfirlætislaus, vinhlý og prúðmannleg..."
Og enn fremur: "Þegar menn heimta að þessi látlausu hús endurminninganna á Bernhöftstorfunni verði afmáð og bera fyrir sig að þau séu úr sér gengin þá er það ónóg röksemd. Þessi gömlu hús eru jafn ófúin og þau hefðu verið reist í gær. Hitt er satt að um viðhald þeirra hefur verið rekin sams konar pólitík og sveitastúlkur reka þegar þær láta tennurnar grotna niður og verða að geiflum svo að þær geti síðan farið suður og keypt sér falskan góm. Eigandi þessara húsa hefur verið sálarlaus persóna og ekki skilið við hvað er átt þegar talað er um bernskuminjar Reykjavíkur, kannski ættaður að norðan...""

Fúaspýtur "upp um allan Laugaveg"

Að lokum langar mig til að vísa í niðurlag greinar Guðjóns Friðrikssonar í Morgunblaðinu í dag (sem ég reyndar  ráðlegg öllum að lesa í heild sinni). Þar segir frá því að húsfriðunarsinnar hafi haft sigur eftir áralanga stranga baráttu einsog við þekkjum af Bernhöftstorfunni í dag :
"Er skemmst frá því að Torfusamtökin fengu síðan fjármagn úr ýmsum áttum til að gera upp og endurbyggja húsin og var það gert á árunum 1980 til 1981. Nokkurt fjármagn fékkst frá ríkinu og Reykjavíkurborg en annað varð að fá með fyrirframgreiðslum væntanlegra leiguhafa og bankalánum. Þetta var mikill áfangi í sögu húsfriðunar á Íslandi og tímamótaatburður. Margir héldu að eftirleikurinn yrði auðveldur í húsfriðunarmálum í Reykjavík. Annað kom þó á daginn.
Enginn vogar sér að vísu lengur að tala um "danskar fúaspýtur" á Bernhöftstorfunni en þær eru hins vegar allt í einu komnar upp um allan Laugaveg, niður um Skuggahverfi og vestur á Vesturgötu.
Á sama hátt og Bernhöftstorfuhúsin voru gerð upp, eftir að hafa verið vanrækt í meira en hálfa öld, er eins hægt að gera upp húsin Laugaveg 2 og 4 í samræmi við upphaflega gerð þessara húsa og koma þeim í góðan rekstur. Það væri hið eina skynsamlega í stöðunni. Skipulagsyfirvöld eiga að hlúa að gömlu húsunum í Reykjavík í stað þess að leyfa niðurrif þeirra í stórum stíl eins og nú er gert. Þeim ber skylda til að sýna sögu og arfleifð okkar Reykvíkinga fulla virðingu."

Vernndum tennurnar eða falskar í hvelli?

Eftir stendur spurningin um hvers konar ásýnd á borginni við viljum hafa. Átökin standa nefnilega ekki bara um gömul hús heldur líka hvað ætti að koma í staðinn væru þau látin víkja. Ef um það væri að tefla að láta umhverfið og fegurðarsjónarmið ráða  för mætti að mínu mati stundum skipta út gömlum húsum fyrir ný. En þannig er það ekki í reynd. Í reynd eru það verktakar og braskarar sem eru að kaupa upp lóðir í gríð og erg í miðborg Reykjavíkur til að byggja síðan stórt og mikið með hámarksgróða í huga. Það eru þessir aðilar sem eru að taka völdin og gegn því þarf að sporna. Þess vegna tek ég undir með þeim Guðjóni, Svandísi og Laxness: Verndum það sem fyrir er í stað þess að reisa sálarlausar stórbyggingar eða með skírskotun í myndlíkingu Nóbelsskáldsins, verndum tennurnar. Þær náttúrulegu eru betri en falskar.