TÍMI TIL AÐ STALDRA VIÐ

Úrskurðað hefur verið um rétt landeigenda við Jökulsá á Dal til greiðslna í bætur vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þeim er heitt í hamsi, telja sig vera hlunnfarna. Talað er um dónaskap. Lögfræðingar segja að réttindi landeigenda séu metin í gegnum baksýnisspegilinn. Nú séu breyttir tímar. Markaðurinn hafi tekið völdin og menn verði að gera sér grein fyrir því. Þetta eru skiljanleg viðbrögð. Stjórnvöld á Íslandi hafa unnið að því að markaðsvæða, ekki aðeins raforkukerfið heldur hafa þau einnig talað fyrir breytingum á lögum sem stykja einkaeignarrétt á vatni í sessi. Til hvors tveggja horfa landeigendur og lögfræðingar þeirra og vitna óspart til þessa. Þeir horfa vissulega einnig til annarra þátta.

Tilfinningahiti á Jökuldal

Það er til dæmis skiljanlegt að landeigendur horfi til þess hvernig stjórnvöld hygla erlendum stóriðjufyrirtækjum á sama tíma og reynt er að komast af með eins lítið og kostur er gagnvart íslenskum aðilum. Í ofanálag er þess að geta að Kárahnjúkavirkjun er smíðuð til að þjóna einum notenda - stórfyrirtæki sem ætlar að stórhagnast á framkvæmdinni. Þessari virkjun sé ekki saman að jafna við virkjanir fyrri tíma þegar virkjað var í þágu alls samfélagsins, ekki einvörðungu stóriðjunnar. Arðsemi eins fyrirtækis víkur fyrir almannahag. Almenningi er ætlað að hagnast óbeint á framkvæmdinni - vonandi. Þessi atriði hafa án efa einnig skipt marga bændur máli. Allt þetta þarf að hafa í huga til að skilja tilfinningahitann á Jökuldal. Hann þarf að skoða í þessu samhengi.
En til eru einnig önnur sjónarmið sem verður að halda til haga. Í fyrsta lagi er raforkukerfið enn í eignarhaldi þjóðarinnar og þrátt fyrir undirgefni stjórnvalda gagnvart erlendum auðhringum er í framtíðinni hægt að snúa af þeirri braut. Fullyrðingar lögfræðinga um að markaðslögmálin ein eigi að gilda standast því ekki. Í annan stað er vatnafrumvarp fyrri ríkisstjórnar með fyrrnefndum styrkingarákvæðum fyrir einkaeignarréttinn ekki orðið að lögum. Stjórnarandstaðan, og þar með annar núverandi stjórnarflokka, hafði heitið því að láta frumvarpið ekki verða að lögum sem ella myndi gerast 1. nóv., þ.e. ef ekkert verður að gert.

Einkaréttur eða almannaréttur

Ég hef fyrir mitt leyti alltaf sagt það vera nauðsynlegt að endurskoða  vatnalagabálkinn frá árinu 1923 í anda nýrra tíma og breyttra viðhorfa. En þau viðhorf ganga í gagnstæða átt við frumvarp fyrri ríkisstjórnar og ganga út á að styrkja almannaréttindi en ekki einkaeignarréttinn á vatni. Þótt sjónarmið landeigenda við Jökulsá á Dal séu skiljanleg í ljósi þeirra viðhorfa sem fyrri ríkisstjórn boðaði eru þau ekki framtíðin. Framtíðin má aldrei verða sú að verðmæti sem eiga að vera í almannaeign gangi kaupum og sölum á peningamarkaði. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að staldra við og spyrja hvort þjóðinni sé ekki hollt að endurmeta stöðuna. 

Fréttabréf