Á MEÐAN LANDINU ER STOLIÐ…

Lífsnauðsyn er að þjóðin þjappi sér nú saman í varnarbaráttu gegn fjármálamönnum - innlendum og erlendum - sem ásælast auðlindir okkar. Auðlindum sjávarins hefur þegar verið stolið að mestu leyti og upp á færiband einkavæðingarinnar er nú verið að setja orkulindirnar; fallvötn, jarðvarma og síðan einnig vatnið, dýrmætustu auðlind 21. aldarinnar. Um þetta er fjallað af lotningu og nærfærni í fjölmiðlum, nánast einsog verið sé að lýsa helgiathöfn. Enda þjónar ríkisstjórn fyrir altari. Hún breytir orkufyrirtækjum í almannaeign í hlutafélög og er þegar byrjuð að selja.
Heldur þykir mér seint í rassinn gripið hjá Framsóknarflokknum sem nýskriðinn úr ríkisstjórnarsamstarfi óskar nú eftir nefndarfundi á Alþingi að ræða málið, sami flokkur og hlutafélagavæddi Hitaveitu Suðurnesja og samþykkti að selja hlut ríkisins með því skilyrði að hluturinn yrði látinn ganga til einkaaðila! Ekki er Samfylkingin, nýjasti meðhjálpari Sjálfstæðisflokksins, hótinu betri. Björgvin, viðskiptaráðherra, segir það nú vera mál málanna að breyta löggjöf þannig að útlendingar geti fjárfest í íslenskum orkufyrirtækjum og sjávarútvegi!
Er ekki kominn tími til að þjóðin láti í sér heyra svo um munar áður en landinu öllu er stolið frá henni? Að venju lætur eftirlitsstofnun markaðshyggjunnar ekki sitt eftir liggja. Í skýrslu, sem birt var í gær og er unnin af norrænum "systurstofnunum"  Samkeppniseftirlitsins, segir, að nú þurfi að greina betur á milli samkeppnis- og einkaleyfisþátta á raforkumarkaði. Á rúv.is er staðhæft eftir skýrsluhöfundum: "Íslenski raforkumarkaðurinn hefur mikla sérstöðu vegna skorts á samkeppni." En bíðum við, á þetta ekki líka við um Svíþjóð og Noreg og reyndar Evrópu alla? Þar stefnir alls staðar í fækkun fyrirtækja, vikulega koma fram ásakanir um verðsamráð og einokun með hækkandi raforkuverði. Samt er haldið áfram inn í öngstrætið - með samanlagðri staðfestu þeirra Friedmans og Suslovs, hugmyndafræðinga sem aldrei láta segjast, sama hvað reynslan kennir. Á meðan brosa gróðapungarnir. Og fitna. 

Fréttabréf