Fara í efni

KVÓTAKERFIÐ ER RÁNSKERFI

Birtist í DV 19.09.07.
Fyrir fáeinum dögum skrifaði ég grein í DV um auðlindir í jörðu, fallvötnin, háhitann og þá hættu sem steðjaði að okkur vegna einkavæðingar orkugeirans. Ekki mætti fara fyrir okkur einsog gerst hefur varðandi  auðlindir sjávar, en í fyrrnefndri DV- grein sagði ég að búið væri „að ræna þjóðina auðlindum sjávar og löngu mál til komið að endurheimta þær.“ Margir hafa orðið til að taka undir þessa brýningu þótt til séu þeir sem hefur mislíkað hún allnokkuð. Hinir síðarnefndu hafa spurt hvort ég  sé að þjófkenna menn og ef svo sé, hvort ekki sé þá rétt að nafngreina þjófana.

Réttmæt reiði

Flestir sem taka þennan pól í hæðina hygg ég að séu í hópi þeirra sem hafa hagnast á kvótakerfinu þótt ekki sé það endilega einhlítt. Hina skil ég miklu betur sem gagnrýna það ranglæti sem fiksveiðistjórnunarkerfið byggir á og elur af sér. Þannig skil ég reiði manna sem sjálfir hafa þurft að kaupa fiskkvóta á uppsprengdu verði – iðulega með mikilli lántöku. Ég skil einnig hina sem eru nánast  leiguliðar – greiða kvótahöfum háar upphæðir – til að fá að setja öngul í sjó. Hvort tveggja hefur hamlað gegn nýliðun í stétt sjómanna og leiðir auk þess til stórfelds félagslegs misréttis. Reiði þessara hópa beinist að kvótakerfinu, höfundum þess og varðstöðumönnum og þá einnig hinum sem hagnast á því. 
Í landslögum segir að auðlindir sjávar skuli vera þjóðareign. Engu að síður hefur verið farið með aflaheimildir, sem margir fengu upp í hendurnar endurgjaldslaust með tilkomu kvótakerfsins fyrir tæpum tveimur áratugum, sem einkaeign. Þær hafa gengið kaupum og sölum, þær hafa verið veðsettar, og þær hafa orðið mörgum uppspretta gífurlegra auðæva. Kerfi sem tekur verðmæti sem þjóðinni ber sameiginlega og færir þau niður í vasa afmarkaðs hóps einstaklinga, er að mínum dómi ránskerfi og ofan af slíku kerfi ber að vinda.

”Nefndu þjófana á nafn”

„Teldu upp þjófana, nefndu þá á nafn,“ sagði einn viðmælandi minn eftir að fyrrnefnd blaðagrein hafði birst. Við þekkjum flest til aðila sem malað hafa gull á kvótabraski í smáum eða stórum stíl. Hins vegar má spyrja hvort allir séu ræningjar sem hagnast á ranglátu kerfi.  Þetta er siðferðileg spurning sem rifjar upp gamla staðhæfingu ættaða frá Vilmundi heitnum Gylfasyni: Löglegt en siðlaust. Ekki ætla ég að dæma alla menn óheiðarlega sem hafa hag af ranglátum lögum og reglum. Því fer víðs fjarri. Hins vegar má reisa þá siðferðilegu kröfu á hendur þeim, að þeir taki höndum saman með félögum sínum í íslensku samfélagi að breyta fyrirkomulagi í þá veru að réttlæti sé fullnægt.
Ef menn vilja halda sig við þá kröfu að ég telji upp ræningjana þá væri sennilega næst lagi að segja að  "ræninginn" sé pólitíkin, hugarfarið, andinn sem hefur svifið yfir vötnum á Íslandi undanfarin ár, stefna sem hefur beinst að því að flytja þjóðareignir og auðlindir frá þjóðinni sjálfri til þeirra sem hafa það eitt að markmiði að græða á þeim sem mesta peninga á sem stystum tíma með öllum tiltækum ráðum.

Fórnarlömb

Það er síðan önnur hlið á sama peningi hvernig á því stendur að kvótahafar láta sig hafa það að ganga svo langt sem þeir gera þegar ranglætið sem hlýst af gjörðum þeirra er svo augljóst. Þá er ég ekki síst að tala um stórlaxana sem flytja kvótann landshluta á milli án tillits til afleiðinga. Fórnarlömbin er þá fólkið í sjávarbyggðunum sem er rænt eignum sínum sem standa verðlausar eftir þegar hinir nýju "eigendur" sjávarauðlindanna hafa braskað með þær sín á milli; sveitarfélögin sem á sínum tíma byggðust hreinlega upp í þeim tilgangi að nýta sjávarauðlindina, en standa nú eftir í uppnámi; sjómennirnir sem hafa verið rændir atvinnu sinni og fiskverkafólkið sem er útilokað frá sjávarútveginum. Síðan má spyrja um fiskistofnana. Hvernig hefur þeim reitt af í kerfi sem öllu átti að bjarga?