"NÁTTÚRUFEGURÐIN ER SAMEIGN ÍSLENSKU ÞJÓÐARINNAR"


Ummæli Huga Ármannssonar frá Stóra-Núpi í Kastljósi Sjónvarpsins á þá lund að sú náttúrufegurð, sem nú er ógnað af virkjunaráformum Landsvirkjunar í neðri Þjórsá, sé sameign íslensku þjóðarinnar voru sem töluð út úr mínu hjarta.
Um síðustu helgi fór ég ásamt félögum mínum í VG um það svæði sem Landsvirkjun hefur áform um að virkja á við Þjórsá. Þessi ferð snart mig djúpt. Þótt ég hafi oft farið um þessar slóðir hef ég aldrei skoðað svæðið af eins mikilli athygli og nú. Hið sama gildir um fréttaflutning af athöfnum Landsvirkjunar og stjórnvalda svo og viðbrögðum almennings. Ég á auðveldara að máta það sem sagt er inn í þá mynd sem ég hef af svæðinu og því sem þar gæti gerst fái Landsvirkjun vilja sínum framgengt.
Það var óneitanlega undarlegt að heyra stuðningsmenn virkjananna tala um þetta stórfenglega svæði á þann hátt að því sé ekki hægt að líkja við "okkar helstu náttúruperlur..!" - og að "umhverfisskaðinn yrði innan ásættanlegra marka."
Einhver sagði að líta yrði á málin "heildrænt" og skoða þau í "þjóðhagslegu samhengi." Undir það tek ég heilshugar.
Bæði þarf að taka hina efnahagslegu þætti til skoðunar og þá ekki síður sjónarhorn Huga Ármannssonar og fleiri virkjanaandstæðinga sem fram komu í umfjöllun Sjónvarpsins. Þannig sagði Guðfinnur Jakobsson, Skaftholti, að "aldrei væri hægt að bæta fallega náttúru með peningum."  Þetta er þjóðhaglsegt samhengi, ekkert síður en krónur og aurar.
Fulltrúi Landsvirkjunar í þessari umfjöllun átti svör við öllu. Vandamál sem upp kæmu eða ósætti færi einfaldlega "í gerðardóm." Og hvað varðaði varnaðarorð Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði, um hættuna af því að koma fyrir þremur virkjunarlónum á einu virkasta sprungusvæði landsins, var einfaldlega staðhæft að finna mætti ráð við nokkrum sprungum: "Það er mjög auðvelt að þétta þær."
Getur verið að ofbeldissvaltarinn sé kominn af stað? Að virkja eigi hvað sem tautar og raular, líkt og við Kárahnjúka þegar útboð voru komin á fullt og framkvæmdir meira að segja hafnar, löngu áður en tilskilin leyfi voru fyrir hendi! Stórtækar vinnuvélar á fullu undir því yfirskyni að verið væri að "rannsaka."
Almenningur þarf að fara að hugsa sinn gang gagnvart þessu ofbeldi. Nú er búið að upplýsa að í leynd og af ótrúlegri óskammfeilni og bíræfni voru vatnsréttindi í almannaeign framseld til ráðstöfunar hjá Landsvirkjun nokkrum dögum fyrir kosningar. Hver er siðferðileg staða slíkrar gjörðar? Hvernig á að bregðast við ofbeldi af þessu tagi? Þetta hljóta menn að þurfa að íhuga. Við þessu þarf að finna svör!

 

 

 

Fréttabréf