Fara í efni

ER LÝÐHEILSUSTOFNUN HÆTT AÐ SINNA HLUTVERKI SÍNU?


Þórólfur Þórlindsson, nýr forstjóri Lýðheilsustöðvar, og Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður ræddust við í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Tilefnið var frumvarp sem Sigurður Kári er fyrsti flutningsmaður að en það gengur út á að heimila sölu á vínum og bjór í almennum matvöruverslunum. Forstjóri Lýðheilsustofnunar kvaðst þessu ekki fylgjandi "persónulega" en hefði þó skilning á því að við þyrftum að taka mið af alþjóðavæddum heimi og laga okkur að þeim háttum sem viðgengjust annars staðar. Lýðheilsustofnun myndi nú endurskoða fyrri álitsgerð sína, en hvernig kom ekki fram. Ég held að fleirum en mér hljóti að hafa brugðið í brún. Er það svo að forstjórinn sé persónulega sáttur við status quo en stofnunin sé veik fyrir rökstuðningi Sigurðar Kára og félaga um aukið verslunarfrelsi með áfengi?

En hverjar eru fréttirnar utan úr heimi?

Varðandi hina alþjóðlegu aðlögun þá er það nú svo að þróunin er víðast hvar í gagnstæða átt við það sem frjálshyggjudeild Sjálfstæðis/Samfylkingarflokks  vill í þessum efnum. Hitt skiptir þó mestu máli þegar kemur að framlagi forstjóra Lýðheilsustofnunar til þessarar umræðu, að honum er ætlað að uppfræða þjóðina hvað rannsóknir hafi leitt í ljós varðandi samhengið á milli dreifingarmáta áfengis annars vegar og áfengisneyslu hins vegar. Honum er ætlað að vekja athygli okkar á áherslum alþjóðastofnana á borð við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, WHO, og annarra tengdra aðila sem láta þessi mál til sín taka. Honum er væntanlega líka ætlað að veita innlendum stjórnvöldum aðhald og minna á þá stefnu og þau markmið sem þau  hafa sett sjálfum sér.

Hefur ríkisstjórnin breytt um forvarnarstefnu?

Þetta hefur Lýðheilsustofnun gert þegar sams konar frumvarp og nú er til umræðu hefur verið borið undir stofnunina. Hér að neðan er slóð í eina slíka umsögn. Þar er tekin mjög eindregin afstaða gegn frumvarpinu og vísað í fjölda erlendra athugana til rökstuðnings. Þá er minnt á að frumvarpið stríði gegn markmiðum Heilbrigðisáætlunar íslenskra stjórnvalda. Þess vegna spyr ég hvort hafi  breyst, heilbrigðis- og forvarnarstefna ríkisstjórnarinnar eða afstaða Lýðheilsustofnunar? Eða getur verið að Lýðheilsustofnun sé hætt að sinna hlutverki sínu með því að taka afdráttarlausa afstöðu í þágu lýðheilsumarkmiða?

http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=131&malnr=241&dbnr=1577&nefnd=a

Í fyrrnefndum Kastljósþætti var birt mjög athyglisvert viðtal erlendan vísindamann á þessu sviði. Hér er slóðin og HÉR er líka samtal þeirra Sigurðar Kára og Þórólfs.