Fara í efni

LÍTIÐ GEFIÐ FYRIR LÝÐHEILSU

Hafin er á Alþingi árviss mannréttindabarátta um að koma áfengissölu í matvöruverslanir. Að þessu sinni er það Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem reisir gunnfána baráttufólksins en um þá stöng halda samtals 17 þingmenn, þar á meðal Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.
Margt umhugsunarvert kom fram við umræðuna í dag. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kvaðst þannig vera að berjast fyrir hagsmunum neytenda með flutningi þessa frumvarps og fyrrgreindur fyrsti flutningsmaður, Sigurður Kári, lagði áherslu á í því samhengi, að það hlyti að vera mikið hagræði í því fólgið að geta keypt eina hvítvín hjá fisksalanum um leið og keypt væri í soðið. Eflaust er þetta rétt athugað hjá Sigurði Kára, en spurning hvort á málinu kunni ekki að vera fleiri hliðar.
Við sem gagnrýnum þetta frumvarp teljum að það sé síður en svo í þágu neytenda. Það sé til þess fallið að hækka innkaupsverð á áfengi og að draga myndi úr vöruúrvali, yrði frumvarpið að veruleika, ekki síst í fámennari byggðarlögum. Þá voru lýðheilsusjónarmið tíunduð af gagnrýnendum frumvarpsins, sem voru margir við umræðuna í dag og úr öllum flokkum á þingi. Ekki var að heyra að lýðheilsusjónarmið féllu í góðan jarðveg hjá stuðningsmönnum frumvarpsins og var þó þar að finna heilbrigðisstarfsfólk. Lítið þótti mér það gefa fyrir lýðheilsu

Sumir eiga erfitt með að skilja hvers vegna frumvarpsflytjendur vilja bara fara með léttvín og bjór í búðirnar í þessu skrefi og benti glögg kona mér á að samkvæmt sinni reynslu væri lítill munur á að drekka sig fullan á rauðvíni eða vodka í kók! Árni Guðmundsson í Hafnarfirði, fyrrum æskulýðs- og tómstundafulltrúi þar í bæ, segist gefa lítið fyrir reglur sem setja eigi um að skilyrði fyrir því að verslun fái leyfi til að selja áfengi sé að aðeins fólk yfir tvítugt fái að afgreiða vökvann. Ekki segir Árni reynsluna af reglum um tóbakssölu gefa tilefni til bjartsýni um að farið yrði að þessum reglum. ( sjá HÉR).
Eitt er víst, mikil umræða á eftir að fara fram innan þings og utan áður en þetta umdeilda mál verður til lykta leitt.