Fara í efni

ER MENNTAMÁLARÁHERRA VIRKILEGA ALVARA?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur nú blandað sér í umræðuna um fjárstuðning Björgólfs Guðmundssonar, fésýslumanns, við dagskrárgerð fyrir Rúv ohf.

Í frétt í RÚV í gær segir um samkomulag RÚV og Björgólfs: “Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafa ...gagnrýnt samninginn, segja stórvarhugavert að athafnamaður öðlist með þessu ítök í starfsemi RÚV og líkur á að það skerði möguleika starfsmanna RÚV til að fjalla um málefni fyrirtækja sem honum tengjast. Þessu vísar Þorgerður Katrín á bug. Hún segir gagnrýnina fyrirslátt og að menn séu að reyna að fela sig á bak við óvild í garð Ríkisútvarpsins. Hún minnir á að hollvinir RÚV hafi einnig verið á móti lagabreytingunni á rekstrarumhverfi RÚV. Þorgerður Katrín segir nær að ræða stöðu RÚV á auglýsingamarkaði. Það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að ræða það hverju sinni með hvaða hætti RÚV eigi að vera á auglýsingamarkaðnum í stað þess að gagnrýna samning sem eflir innlenda dagskrárgerð.”

Ég skal játa að mig setti hljóðan við að heyra þessi ummæli. Það er rétt að Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins börðust gegn því að stofnunin yrði gerð að hlutafélagi. Það var gert vegna þess að samtökin óttuðust að það myndi veikja Ríkisútvarpið yrði það gert að hlutafélagi. Með öðrum orðum andstaðan við hlutafélagavæðingu var vegna umhyggju félagsmanna fyrir Ríkisútvarpinu og framtíð þess. Nú er þessum hópi legið á hálsi fyrir að vera sérstakt óvildarfólk RÚV vegna þess að það var á öndverðum meiði við ráðherrann um rekstrarform stofnunarinnar! Er ekki eitthvað háskalegt við þessa hugsun? Mér finnst ástæða að spyrja þess. Við sem viljum taka ráðherrann alvarlega hljótum að gera það.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráherra, gefur því undir fótinn að RÚV kunni að verða tekið út af auglýsingamarkaði. Hvað gerðist þá? Yrði stofnuninni ekki þrýst fastar inn í faðmlagið við Björgólf Guðmundsson og hans líka? Ég held að ráðherrann þurfi að fara að átta sig á því að aðrir kostir koma einnig til greina varðandi tekjustofna RÚV. Ef reyndin verður sú að auðmannaleiðin verður valin, hver kemur þá til með að segja að sátt verði um lögþvingaðan nefskatt Þorgerðar Katrínar til RÚV ohf?