TÓNSPROTINN


Nýlega hlotnaðist mér sá heiður að opna allsérstæða vefverslun með hljómdiska.Verslunin, sem nefnist Tónsprotinn, er sérstæð fyrir það að hún byggir á samstarfi hljómlistarmanna og ýmissa þjóðþrifasamtaka. Þar nefni ég klúbbinn Geysi sem ég þekki af góðu; hef setið þar í stjórn og kynnst starfi á hans vegum í þágu fólks sem stríðir við geðveilu. Mörg önnur samtök koma að þessu samstarfi. Þar má nefna MS-Félagið, Kraft, Umsjónarfélag einhverfra, ABC-barnahjálp, FAAS Geðhjálp, Umhyggju og Ljósið.   
Kaupi menn hljómdisk á Tónsprotanum rennur hluti af andvirðinu til Geysis og ámóta samtaka.
Við opnun Tónsprotans keypti ég hljómdisk með South River Band og rann tiltekin upphæð til Geysis. En viti menn á diskinum var að finna lag með Geir nokkrum Haarde. Sá mun vera forsætisráðherra Íslands nú um stundir. Geir syngur vel. Ósagt skal látið hvort honum farnist landstjórnin eins vel og að þenja raddböndin. Þar dæmi hver fyrir sig.
Ég hvet lesendur til að fara inn á heimasíðu Tónsprotans og kynna sér hvað þar er á boðstólum: http://www.tonsprotinn.is .
Drifkrafturinn að baki þessu framtaki hygg ég að komi frá hinum eldhressu félögum í South River Band, sjá nánar, http://www.southriverband.com/

Fréttabréf