SJÁLFUM MÉR TIL VARNAR

Birtist í Fréttablaðinu 06.12.07.

Grafalvarleg eru skrif ungra manna í bloggheimum þar sem fólki sem talar máli kvenfrelsis er hótað ofbeldi, hrottafenginni nauðgun eða öðrum líkamsmeiðingum. Á undanförnum dögum hef ég séð ofbeldis- og hótunarskrif af þessu tagi og hefur þeim verið komið á framfæri við lögregluyfirvöld. Að sjálfsögðu var það gert. Að mínum dómi væri það hreinlega ámælisvert að láta skrifin óátalin.

Aðgerðarleysi gagnvart ofbeldi á ekki rétt á sér. Ekki heldur andvaraleysi. Þannig verður einræðismenningin til. Ekki aðeins vegna þess að ofbeldismenn gerast fyrirferðarmiklir og hrifsa til sín völdin heldur vegna hins að þeir eru látnir komast upp með það. Það á að verða þjóðfélaginu öllu til umhugsunar ef hér er að myndast andrúmsloft þar sem það líðst að allir þeir sem hreyfa við ranglæti í samfélaginu eru látnir sæta einelti og hótunum! Af slíku stafar sjálfu lýðræðinu ógn.

Hver eru þau kvenfrelsismál sem fara helst fyrir brjóstið á þessu umburðarlitla og ofbeldisfulla fólki? Ég læt mér nægja að vísa í baráttumál þess stjórnmálaflokks sem ég starfa innan, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Í þeim flokki höfum við barist fyrir því að komið verði í veg fyrir kynbundið ofbeldi, að mansal verði stöðvað, kynbundnum launamun útrýmt, að jafnræði ríki með kynjunum á vinnumarkaði, innan stjórnsýslunnar og í fyrirtækjum. Við viljum með öðrum orðum tryggja mannréttindi öllum til handa á öllum sviðum þjóðlífsins, óháð kyni.

Það er gegn baráttu af þessu tagi sem við félagar í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði þurfum að sitja undir skrifum þar sem sagt er beint út og vafningalaust að leiðin til að þagga niður í okkur sé að beita okkur líkamlegu ofbeldi. Ég höfða til samfélagsins alls um að láta ofbeldi af þessu tagi ekki óátalið. Ég höfða til lýðræðisvitundar þjóðarinnar og réttlætiskenndar þótt ég setji þessar línur á blað einnig með þrengra sjónarhorn í huga. Ég skrifa sjálfum mér til varnar.

Fréttabréf