Fjölmiðlar
2. Janúar 2003
Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum skrifar:
Um áramótin hlustar þjóðin á landsfeðurna í fjölmiðlum og menn skiptast á skoðunum að því loknu og ræða málið sín á milli. Löngum hafa það verið ávörp forseta Íslands og forsætisráðherra, sem vakið hafa umræður manna á meðal, en einnig áramótakveðja útvarpsstjóra, fyrir því er löng hefð hér á landi og áhugaverð.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fjallaði um þá undarlegu stöðu sem komin er upp með þjóðinni: tölur sýna mikla velmegun, efnahagsástandið er upp á það besta og framkvæmdir miklar. En á hinn bóginn er fátækt orðin að þjóðfélagsvandamáli. Forsetinn hvatti launþegasamtök og þjóðina í heild til að bregðast hér við vaxandi vanda með samstilltu átaki. Misskipting auðsins er reyndar ekki nýtt pólitískt vandamál. Í annan stað vék forsetinn að greiningu á samfélagi uppvaxandi kynslóðar þar sem ekki yrði lengur horft framhjá ofbeldi og fordómum, sem alið væri á í leikjum og öðru afþreyingarefni fyrir börn og unglinga, í þessu efni væri einnig brýn þörf á nýrri vitundarvakningu. Í þriðja lagi fjallaði forsetinn á áhugaverðan hátt um breytingu sem hefur verið að gerast á íslensku samfélagi undanfarin ár og áratugi. Landsbyggðin er ekki lengur mótandi um sjálfskilning Íslendinga og vagga íslenskrar menningar heldur höfuðborgarsvæðið. Þar mótast ný ásýnd íslenskrar sjálfsvitundar og kemur fram í skapandi listum og raunar á öllum sviðum þjóðlífsins. Þarna er menning nútímans að gerjast, gróskumikil og áhugaverð og ber hróður lands og þjóðar langt út fyrir landsteinana. Þetta var nýstárleg innsýn inn í íslenskan þjóðfélagsveruleika sem ég tel að hafi vakið marga til umhugsunar. Þessi innsýn bregður nýju ljósi á samskipti landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og setur borgina í nýtt menningarlegt samhengi: á höfuðborgarsvæðinu hvílir ábyrgð á eindreginni menningarlegri forystu sem áður fyrr var í strjálbýlinu þar sem framsýnt og framsækið fólk var í fararbroddi í menningarmálum þjóðarinnar.
Forsetinn sýnir með þessari nýársræðu að hann er með höndina á púlsinum og jafnframt að hann skynjar vel undirstrauminn í þróun samfélagsins. Það er honum einkar lagið að ræða við þjóðina um málefni, sem á henni brenna, og koma efninu til skila á vönduðu og glæsilegu máli þar sem flutningur spillir ekki fyrir. Forsetinn nær til þjóðarinnar þegar hann talar frá Bessastöðum.
Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra hófst á léttu nótunum að þessu sinni, hann kvaðst ávallt vera í góðu skapi á gamlársdag og sneri þannig við þeirri hefðbundnu staðhæfingu að áramót kölluðu á angurværar hugleiðingar um leyndardóm tímans, hins liðna og hins ókomna. Þetta var snjöll og kannski ögrandi nýbreytni.
Forsætisráðherra benti á að erlendar stofnanir hefðu sett Ísland og Íslendinga ofarlega á lista yfir þjóðir sem treystandi væri í þessum heimi. Traustið væri lykilhugtak í mannlegum samskiptum og fátt eða ekkert væri stjórnmálamönnum eins mikilvægt og að njóta trausts; en þeir yrðu að ávinna sér það með verkum sínum. Hann lauk ræðu sinni með hefðbundnum hætti og hvatti þjóðina til að vinna landi sínu gagn í stóru sem smáu.
Ávarpið skilur eftir spurningu um traust þjóðarinnar til stjórnmálamanna. Þar er sígilt umræðuefni á ferð. Kjarni málsins hlýtur að vera sá að hver, sem gefur sig að stjórnmálum, gefur sig í baráttu, á þingi er tekist á um málefni þar sem engin ástæða er til að gefa eftir, þar verður stjórnmálamaðurinn að taka alla þá áhættu sem felst í því að berjast fyrir góðum málstað, þar verður hann að standa eða falla. Traust þurfa menn ekki að missa þótt þeir séu umdeildir. Umdeildir menn glata sjaldnast trausti svo framarlega sem þeir halda leikreglur samfélagsins. Traust missa menn þá fyrst þegar þeir brjóta leikreglur, m.a. leikreglur lýðræðisins um virðingu fyrir sjónarmiðum andstæðingsins en knýja mál sitt fram í krafti valds og tímabundinna yfirburða, svo eitthvað sé nefnt. Hér mætti því segja sem svo að skilaboð forsætisráðherra væru öllu heldur stíluð til stjórnmálamanna en þjóðarinnar.
Umræða um traust er alltaf gagnleg en engu að síður hefði mátt búast við því af forsætisráðherra að hann tæki til umfjöllunar málefni líðandi stundar. Reyndar virðist honum margt annað betur gefið en að nálgast þjóðina í landsföðurlegum anda og ræða við hana á málefnalegan hátt um brennandi viðfangsefni sín og ríkisstjórnarinnar; samtal af því tagi hefði getað verið áhugavert við áramót.
Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefur mótað sérstakan stíl við að koma áramótakveðju sinni á framfæri til þjóðarinnar. Forverar hans báru þar merkið hátt, þar minnist ég Andrésar Björnssonar, sem naut virðingar fyrir frábærar áramótaræður þar sem hann kallaði þjóðina til hugleiðinga um líf og starf einstaklinga og samfélags í ljósi menningar- og trúararfs þjóðarinnar. Séra Heimir Steinsson fylgdi sömu stefnu. Markús Örn Antonsson hefur í reynd verið trúr sömu hefð þótt búningurinn sé annar þar sem hann hefur gjörnýtt möguleika sjónvarpsins með því að sviðsetja frásögn og flétta inn í hana söng og dansi. Útvarpsstjóri hefur valið sér frásagnarformið í stað hins hefðbundna ræðuforms með huglægri umfjöllun um sígild viðfangsefni. Það var vel til fundið að taka þáttinn upp í höfuðstað norðurlands og gefa honum dálítið norðlensk yfirbragð, hús skáldanna séra Matthíasar og Davíðs Stefánssonar voru vel til þess fallin að vera vettvangur frásagnarinnar. Það er áhugavert að ausa af brunni íslenskrar menningar með þeim hætti sem útvarpsstjóri gerði og kjörin leið til þess að vekja áhuga ungs fólks á efninu. Verk þeirra séra Matthíasar og Davíðs Stefánssonar eru fyrir löngu lent meðal þeirra bóka, sem lítið eru hreyfðar í bókaskápum, en sígild snilld þeirra er óbreytt og hafin yfir annríki líðandi stundar. Áramótakveðja útvarpsstjóra togast með sérkennilegum hætti á við eldglæringar og skothvelli áramótanna og hefur henni aukna – mér liggur við að segja tilvistarlega – dýpt. Slíkt efni hæfir áramótum.
Gunnar Kristjánsson, Reynivöllum
Frá lesendum
15. Apríl 2018
SITT SÝNIST HVERJUM
Ögmundur minn kæri. Ég hefi nú um langt skeið ekki tjáð mig varðandi mál líðandi stundar. Ég get þó ekki orða bundist hversu harkalega öfl innan VG fara gegn Katrínu okkar Jakobsdóttur. Mér finnst helv hart hversu sú er við tók af þér og ég veitti brautargengi á sínum tíma fer grimmilega fram gegn okkar frábæra formanni og kann ég henni litlar þakkir fyrir. Auðvitað stöndum við öll gegn beitingu vopnavalds og ég tala nú ekki um beitingu efnavopna, en mér finnst aðallega vera mesti hávaðinn eftir að Trump og co fóru fram og eyðilögðu efnavopnaverksmiðjurnar, þessi háværu mótmæli voru ekki mjög svo í frammi þegar Rússar og stjórnvöld í Sýrlandi voru að berja á þjóðinni. ...
Óskar K Guðmundsson fisksali
14. Apríl 2018
UTANRÍKIS-NEFND ALÞINGIS TAKI AF SKARIÐ
Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra og núverandi fréttaskýrandi RÚV, segir í fréttum að samkvæmt foringja NATÓ styðji Ísland árásirnar á Sýrland, það standi þar til annað verði sagt. Um þetta hlýtur utanríkismálanefnd Alþingis að greiða atkvæði þegar hún kemur saman eftir helgi - eða hvað?
Jóel A.
14. Apríl 2018
LÍÐUR STRAX BETUR EN SPYR SAMT HVORT ENGIN TAKMÖRK SÉU FYRIR RUGLINU
Mér líður strax betur eftir að hlusta á fréttir RÚV og Stöðvar 2 af árásunum á Sýrland.Trump skýrði fyrir okkur hvers vegna árásirnar voru nauðsynlegar og síðan komu Guðlaugur utanríkisráherra og Katrín forsætisráðherra og sögðust hafa skilning á árásinni, hún hefði verið "víðbúin", sagði forsætisráherra. Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra mætti svo í fréttir til að segja að engin stórhætta væri á ferðum, árásarþjóðirnar ætluðu ekki að fara að blanda sér í átökin í Sýrlandi, það hefði aldrei verið vilji til þess af þeirra hálfu!!! En herskipin halda áfram að safnast við Sýrlandsstrendur og Trump segir að Bandaríkjamenn séu tilbúnir að halda árásum áfram. Hann talar fyrir hönd ríkis sem tekið hefur þátt í stríðinu og ausið milljörðum til stðunings leppherjum sínum ... Eru engin takmörk fyrir ruglinu? ...
Jóhannes Gr. Jónsson
11. Apríl 2018
TIL UPPRIFJUNAR
Var fyrst núna að hlýða á viðtalið á Kjarnanum í kjölfar fundarins við V. Beeley. Verð að segja að ég dáist að þolinmæði þinni, æðruleysi og staðfestu gagnvart þessum blessuðum, að mér finnst ófaglegum frétta-gösprurum. Ég sá að Z.Brzezinski lést í maí síðastliðnum, vissi það ekki. Set þessa þýðingu á viðtali við hann á Le Nouvel Observateur 1998 þar sem hann viðurkennir að stuðningurinn við Mujahiddin hófst 1/2 ári fyrir innrás Sovétríkjanna inn í Afganistan. Við hæfi að ...
Ari Tryggvason
7. Apríl 2018
ÉG ER Í LIÐI GUÐS, ÞÚ SATANS
Árni V.
7. Apríl 2018
EINHVER ÚR NÆR-UMHVERFINU, GEOGRAFÍSKU EÐA ANDLEGU
Ari Tryggvason
6. Apríl 2018
BÆTA KJÖR SÍN UMFRAM ALMENNING
á botninum hinir frjósa
Og líklega er það líka satt
að bráðlega skuli kjósa.
...
Pétur Hraunfjörð
27. Mars 2018
GEGN PÓLITÍSKUM RÉTTTRÚNAÐI
Bjarki Ágústsson
13. Mars 2018
ISS BLÓMSTRAR, VALT GENGI VG, OG UM ÞINGMANNAKÆK
Já víst er lánið ósköp valt
í Vinstri/Grænum hlakkar
En undurfljótt mun anda kalt
og útúr þessu bakkar.
....
Pétur Hraunfjörð.
25. Febrúar 2018
ASSGOTI ...
almenningur grætur
Með pólitíska flokka potið
og langleguafætur!
Pétur Hraunfjörð