Fara í efni

BSRB tryggi persónuvernd

Komdu sæll Ögmundur.
Ég hlustaði með athygli á viðtalið við þig í morgunútvarpinu í gær um persónuvernd. Sjálf er ég í BSRB og er mjög ánægð með að samtökin skuli taka þetta málefni upp og hvet til þess að að haldið verði áfram á þessari braut. Reyndar hef ég minnstar áhyggjur af því að kíkt sé í tölvuna mína. Mér finnst öllu verra þegar vinnustaðurinn er farinn að færa sig upp á skaftið með tilkomu svokallaðra trúnaðarlækna. Í útvarpsviðtalinu sagðir þú að Finnar væru að setja reglur um hvernig farið skuli með heilsufarsupplýsingar á vinnustað. Er ekki þörf á að setja slíkar reglur hér á landi?
Ein sem vinnur á bókasafni

Komdu sæl.
Ég er þér alveg sammála. Það er þörf á slíkum reglum jafnvel þótt við höfum ekki gengið eins langt og Finnar í því að færa heilbrigðisþjónustu inn á vinnustaðinn. Að því hefur verið unnið markvisst um árabil þar í landi. Að mínu mati er það röng stefna. Flest teljum við heilsufar okkar vera einkamál og ekki koma vinnustaðnum við að öðru leyti en því sem snertir vinnuna á beinan hátt. Það á að vera komið undir okkur sjálfum hvað við viljum bera á borð af upplýsingum um persónulega hagi.  Sjúkdómar sem hrjá okkur eru að sjálfsögðu eðlilegir í þeim skilningi að þeir eru lífsins gangur og í raun engin ástæða til að gera neinn sjúkdóm að felumáli. Engu að síður getur sjúkdómssaga manna ruglað atvinnurekendur í starfsmannaleit í ríminu þannig að þeir ráði síður menn til starfa  - jafnvel þótt þeir séu annarra manna afbragð - ef þeim er kunnugt um að þeir hafi veikst einhvern tíma á æviskeiðinu. Sjúkdómssaga okkar á þess vegna ekki heima á kontór starfsmannahaldsins á vinnustöðum hvað þá í vinnumiðlunum – nema nátturlega í þeim tilvikum að fólk sé með öllu óvinnufært sökum sjúkleika.
Með kveðju, Ögmundur