Fara í efni

Á að útrýma fátækt með frjálsum framlögum eða samfélagslegum lausnum?

Sæll Ögmundur.
Á undanförnum 10-15 árum hefur æ meir borið á umræðum um fátækt í aðdraganda jólanna þótt auðvitað sé skorturinn ekki bundinn við einn mánuð á ári. Árlega eru fréttir af vaxandi verkefnum Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Hópurinn sem þarf að leita á náðir frjálsra félagasamtaka um framfærslu fer stækkandi og í fjölmiðlum eru tíundaðar rausnarlegar gjafir ríkra einstaklinga. Ekki hef ég neitt á móti líknarstarfi félagasamtaka en óneitanlega má kalla vaxandi umsvif þeirra öfugþróun. Nítjánda öldin var blómaskeið líknarfélaga hinna efnameiri og engu líkara en nú megi merkja afturhvarf til þeirra tíma. Spyrja má; hver á að bera ábyrgð á velferð þegnanna? Á hún að byggjast á sjálfboðastarfi og einkaframtaki og jafnvel auglýsingamennsku þeirra sem vita ekki aura sinna tal? Er það ekki hlutverk opinberra aðila að sjá svo um að umræða um fátækt í íslensku samfélagi sé með öllu óþörf; samfélagi sem er talið á meðal hinna ríkustu í veröldinni?
Með kveðju, Gunnlaug Guðmundsdóttir

Ég þakka þér fyrir bréfið Gunnlaug.
Mér finnst það vera að ágerast að fyrirtæki noti það í auglýsingum að þau láti fé af hendi rakna til Mæðrastyrksnefndar og annarra góðgerðaraðila og vilja þar með slá sig til ridddara. Ekki vil ég gera lítið úr þeim sem rétta hjálparhönd en ekki neita ég því að fremur hefði ég kosið að þessi fyrirtæki hefðu tekið undir kröfur um að kjör tekjuminnsta fólksins í samfélaginu yrðu bætt. Stundum jaðrar við að maður hafi það á tilfinningunni að verið sé að gera út á örbirgðina.
Kveðja, Ögmundur.