Fara í efni

Af hverju þessi þögn um kjölfestu allra landsmanna?

Sæll Ögmundur
Í ágætri grein í Fréttablaðinu 7. desember skýrir þú hvernig ríkisstjórninni tekst að sýna fram á stórkostlegan rekstrarafgang ríkissjóðs með bókhaldsbrellum á grundvelli yfirstandandi rýmingarsölu á eignum þjóðarinnar. Auralausum framsóknarmönnum er færður Búnaðarbankinn á silfurfati. Samsonarnir fengu Landsbankann en þeir voru ekki tómhentir enda búnir að gera það gott við framleiðslu á áfengum drykkjum í Rússlandi. Um framsóknarmennina hef ég lítið fram að færa en ég sakna þess hversu lítið hefur verið fjallað um Samsonshópinn í fjölmiðlum því hann á greinilega spennandi feril að baki. Eftir vel heppnaða útrás komu þremenningarnir heim færandi hendi, klyfjaðir ævintýralegu magni af erlendum gjaldeyri. Þá má ekki heldur gleyma því að einn þeirra, Björgúlf Guðmundsson, má með nokkrum rétti telja brautryðjanda fækkunar og einkavæðingar ríkisbankanna. Árið 1985 tapaði Útvegsbankinn hundruðum milljóna í viðskiptum við fyrirtæki hans, Hafskip, og varð gjaldþrot þess á endanum banabiti bankans. Björgúlfur hefur því átt drjúgan þátt í einkavæðingu tveggja ríkisbanka af þremur. Hvað veldur því að fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa verið tregir til að hampa afrekum Samsonanna og skoða þau ofan í kjölinn? Er þetta bara venjulegt hirðuleysi landans eða sá landlægi og ljóti ávani að þegja sögu okkar framsæknustu athafnaskálda í hel? Vonandi sjá ungir sjálfstæðismenn sóma sinn í því að veita a.m.k. Björgúlfi einhverja viðurkenningu fyrir hans hlut í einkavæðingu bankanna.
Með bestu kveðju, Björn Ólafsson

Heill og sæll Björn.
Auðvitað er rétt hjá þér að Samson-hópurinn hefur ekki fengið þá athygli sem hann verðskuldar. Fjölmiðlar virðast svolítið dofnir gagnvart þessum nýju eigendum bankakerfisins á Íslandi. Auðvitað eru margir fréttamenn og fjölmiðlamenn ágætir og láta gott af sér leiða. Hins vegar þykir mér vera þörf á því að íslenskir fjölmiðlar færu í sjálfsstyrkingu. Þegar kemur að málum af þessu tagi koðna þeir niður.
En sá hópur sem ég furða mig mest á að skuli þegja eru frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum. Hvers vegna láta þeir það viðgangast að makkað sé með þessar eignir þjóðarinnar; búnir til kjölfestufjárfestar sem svo eiga að heita til þess eins að stjórnarflokkarnir geti samið um skiptin. Fyrst menn á annað borð vildu selja þessar þjóðareignir, hvers vegna í ósköpunum kröfðust einlægir markaðssinnar þess ekki að bankarnir væru seldir á opnum markaði? Hvers vegna þetta makk? Eru ekki til hægri menn með samvisku eða er þetta hræðsla við valdið, undirgefni, hvað skýrir þögn þeirra?
Kveðja, Ögmundur