Fara í efni

Heil brú - og brotin

Samfylkingin hefur árum saman lagt áherslu á tiltekna lausn í kjördæmamálum. Flokkurinn samþykkti núverandi skipan, þá skipan sem kosið verður eftir í vor,  með hangandi haus og hálfréttri hönd. Röksemdir samfylkingarfólksins eru að sumu leyti ættaðar frá Alþýðuflokknum sem jafnan lagði á það ríka áherslu að þingmenn væru ekki í kjördæmapoti heldur ættu þeir að sinna löggjafarstörfum fyrst og fremst. Hugsa um heildina, vera þingmenn allra landsmanna, ekki sérhagsmunaþingmenn. Sá sem rökstuddi þessa hugsun hvað best í seinni tíma sögu var Vilmundur Gylfason, sem hafði að mörgu leyti meiri áhrif á íslenska stjórnmálahugsun, en menn vilja almennt viðurkenna. Hér skal ekki felldur neinn absalút dómur um þessar hugmyndir heldur bent á, að það sem nú gerist á vettvangi Samfylkingarinnar gengur gegn þessum grundvallarhugmyndum flokksins og gegn arfinum frá Alþýðuflokknum að þessu leyti. Hver eru rökin fyrir því að borgarstjórinn í Reykjavík vill hasla sér völl í landsmálum, sem er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt fyirir hana ef hana þyrstir í meiri völd og áhrif? Hverju svarar borgarstjórinn sjálfur þegar gengið er á hana? Hún elur þá ósk í brjósti að koma borgarmálum á dagskrá og fá tækifæri til að tala máli borgarbúa á Alþingi! Ekki er nóg með að hún niðurlægi félaga sína í Samfylkingunni í Suður- og Norðurkjördæminu með þessu. Með málflutningi sínum víkur borgarstjóri frá þeirri meginhugsun í kjördæmamálum, sem manni hefur skilist að væri grundvallarmál hjá flokknum sem vill fá hana í framboð og meira en það - hún virðist óska þess að snúa þingmennskunni upp í kjördæmapot af því tagi sem menn hafa verið að hverfa frá undanfarin ár. Í framboðinu, eða framaboðinu, virðist að mörgu leyti ekki heil brú heldur brotin. Gagnvart áherslum og hefð jafnaðarmanna í Samfylkingunni, flokkunum sem hún er fulltrúi fyrir í borgarstjórastólnum, en umfram allt gagnvart fólkinu sem kaus hana til að vera mótpóll Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hafsteinn