Fara í efni

Össur í forsæti, Ingibjörg kúla og Þórólfur smyrsl

Þrátt fyrir þá stórskotabyssu sem Samfylkingin eignaðist á dögunum hefur Össur Skarphéðinsson lýst því yfir að hann verði áfram formaður fylkingarinnar og jafnframt forsætisráðherraefni hennar. Í ljósi þess að Samfylkingin hefur mikinn og vaxandi byr í skoðanakönnunum má telja meira en líklegt að Össur taki við stjórnartaumunum á vori komanda. Að líkindum verða þó kosningar haldnar eins og lög gera ráð fyrir áður en hann tekur við embætti.

Össur er þegar farinn að æfa sig í hlutverki landsföðurins eins og glöggt má sjá í viðtali í Mbl. 31. des. s.l. Þar skartar forsætisráðherrann tilvonandi fögru tungutaki og margbrotnu líkingamáli og svo vel tekst til að þjóðin hlýtur að hlakka til næsta áramótaávarps. Össur er orðinn skáldmæltur, rétt eins og Davíð og má vart á milli sjá hvor hefur vinninginn.

Tilefni viðtalsins í Mbl. eru þeir atburðir sem urðu til þess, “að Ingibjörg Sólrún varð, nauðug viljug, að standa upp af stóli borgarstjóra”. Þá segir Össur að ákvörðun Ingibjargar um þingframboð hafi valdið mikilli skelfingu meðal framsóknarmanna og vinstri grænna. Honum hafi reyndar komið á óvart “hversu þétt forysta VG límdi sig” við Framarana: “Mér fannst eins og formaður VG væri eins konar botnlangi úr forystu Framsóknarflokksins.” Já, varla verður Steingrími Joð betur lýst. Hann er botnristilslegur að utan sem innan.

 En málið snýst ekki um einhvern ristil úr Þistilfirði heldur fráfarandi borgarstjóra og fallstykkið mikla, Ingibjörgu Sólrúnu. Össur segir að hún hafi “í krafti þessarar atburðarásar komið eins og sprengikúla inn í landsmálin”. Óviðjafnanleg líking og hann er hræddur um að “að afl hennar eigi eftir að koma mönnum á óvart þegar hún fer að berjast af fullum krafti”. Ingibjörg hafi sjálf sagt “að hún myndi há grimmilega baráttu á landsmálasviðinu úr 5. sætinu.” Já, það mun ekki há henni að heyja sitt stríð úr aftursætinu en það er eins gott að kúlan sú lendi ekki í forsætisráðherranum okkar tilvonandi sem auðvitað situr við stýrið.

En hvað um kreppu R-listans og framtíð hans? Össur segir m.a.: “endataflið var teflt fyrst og fremst til þess að tryggja líf R-listans. Á þessum tólf dögum hékk það mörgum stundum á bláþráðum, en þeir héldu.” Já, eins gott að bláþráðurinn var ekki bara einn, en blaðamaðurinn spyr hvort ekki séu margir sárir eftir bardagann. Össur gerist landsföðurlegri við hverja spurninguna og eftir að hafa skimast um í sjúkraskýli R-listans hann:

Ekki neita ég því að það eru marblettir eftir og sumir eru lemstraðir, en marið hverfur og menn ná sér. Ég held að Þórólfur Árnason [verðandi borgarstjóri] hafi alla burði til að verða það smyrsl sem græðir nokkuð fljótt þær undir sem liggja eftir þessi átök.

Þetta hefði Davíð Oddsson ekki getað orðað betur og ljóst að landsmenn munu ekki setja Össuri ráðherrastólinn fyrir dyrnar. Hitt er svo annað mál hvort Þórólfur smyrsl muni nokkuð græða á líknarstörfum sínum enda borgarstjóralaunin aðeins 760 þúsund krónur á mánaðargrundvelli - brotabrot af því sem gerist og gengur á meðal millistjórnenda á hinum frjálsa markaði.

Þá er rétt að geta þess að væntanleg eru á næstu jólabókavertíð tvö smásagnasöfn eftir Össur. Annað gengur undir vinnuheitinu “Stolið frá höfundi Evrópusambandsins”. Hitt hefur þegar hlotið þann óborganlega titil, “Aldrei skal ég undir liggja Guðnýju með smyrslið.” Og nú er bara að sjá hvort heftin hans Össurar muni ekki seljast eins vel og bækur fráfarandi forsætisráðherra.

Öllum er ljóst að skúta Samfylkingarinnar er á mikilli siglingu, vel vopnum búin og með valinn mann í hverju rúmi. Stefnan er hins vegar dálítið þokukennd og úr því þarf að bæta leiftursnöggt. Vissulega hefur kúrsinn verið settur á ESB, hernaðarstefna Nato og Bandaríkjaforseta er í stórum dráttum mönnum að skapi og ekki má missa herinn úr landi vegna yfirvofandi innrásarhættu Stalíns heitins og félaga. Þá fellur einkavæðingarstefna núverandi stjórnarflokka eins og flís við rass Samfylkingarinnar og sama má segja um stóriðjustefnuna. Að þessu sögðu er ekki ekki ástæðulaust að spurt sé: Hvað hefur Samfylkingin upp á að bjóða, annað en núverandi ríkisstjórn, almenningi til handa? Það virðist ansi fátt nema nýjar fallbyssur og gamlar. Stórskotahríð, auglýsingamennska og innantómt raup kann að duga í bráð. En þegar til lengdar lætur og nær dregur kosningum verða það fyrst og fremst málefnin sem ráða.

Með leiftursnöggri áramóta- og baráttukveðju, Brandur