Eins og blautur sandpoki

Sæll Ögmundur.
Ósköp þykja mér fjölmiðlarnir okkar oft vera sofandalegir. Eða getur það verið að mér einum finnist undarleg framkoma Framsóknarflokksins við öryrkja og samtök þeirra? Streist hefur verið á móti öllum kröfum okkar og þegar dómur féll okkur í hag - Öryrkjadómurinn -  þá vorum við ekki einu sinni látin njóta vafans. En nú þegar þingið hefur verið sent heim og kjörtímabilinu nær lokið þá er rokið upp til handa og fóta og gerður samningur við Öryrkjabandalagið sem á að taka gildi á næsta kjörtímabili!! Eru engin takmörk? Getum við síðan búist við því að Framsókn auglýsi þetta sem hluta af árangri framsóknarmanna í samstjórnum með Íhaldinu í átta ár?
Öryrki 

Sæll og blessaður.
Ég er sammála þér nema hvað ég tel að við eigum að samgleðjast með Öryrkjabandalaginu sem hefur unnið af miklum krafti í réttindabaráttunni á undanförnum árum. Árangurinn nú er fyrst og fremst Öryrkjabandalaginu að þakka og staðfastri baráttu þess. Það kennir okkur að sá sem aldrei gefst upp hefur að lokum árangur af erfiði sínu. Það á við um Öryrkjabandalag Íslands. Um Framsóknarflokkinn ætla ég að segja sem minnst af þessu tilefni en ég tek undir með þér að eðlilegra hefði verið að flokkurinn hefði svarað kröfum öryrkja fyrr. Það má nefna að á hverju einasta ári var þessi slagur tekinn við fjárlagaumræðuna. Þá  var Framsóknarflokkurinn álíka viðræðugóður og blautur sandpoki.
Kveðja, Ögmundur

Fréttabréf