Fara í efni

Frábærir frjálsir pennar

Heill og sæll Ögmundur.
Ég tek undir með þér að greinarnar sem komu inn á heimsasíðuna í gær voru sannkölluð skyldulesning. Í rauninni langar mig til að óska þér til hamingju að fá svona magnaða skríbenta til liðs við þig. Ég vildi að allir læsu greinarnar eftir prestinn og sagnfræðinginn. Niðurlagsorð séra Gunnars á Reynivöllum eru þessi: "Lærdómurinn af Víetnamstríðinu er m.a. sá að almenningur lætur ekki að sér hæða, þeir sem fóru með lygum og stríði urðu sér til minnkunar. Sú saga er nú að endurtaka sig. Það er dapurlegt hversu veiklynd íslenska ríkisstjórnin er í þessu efni og fús til að fylgja þeim sem verja málstað stríðsaflanna í þessum heimi sem vita ekkert sér til bjargar annað en orðræðu óttans, tungumál stríðsins svo samofið blekkingum, úrræðaleysi og mannhatri sem raun ber vitni." Menn verða að lesa greinina í heild sinni til að fá hana í rétt samhengi en mig langar til að taka undir þessi orð séra Gunnars jafnframt því sem ég hvet lesendur til að gaumgæfa þessa grein.

En víkjum að grein Þorleifs Óskarssonar sagnfræðings. Hann er greinilega róttækur en er þó tilbúinn að gefa sanngjörnum kapitalistum kredit, samanber eftirfarandi: " Ég sakna grandvarra og mikilla athafnamanna, t.a.m. á borð við Einar Guðfinnsson í Bolungarvík sem barst aldrei á - setti ekki eigin hag í öndvegi heldur Bolvíkinga allra. Vel kann að vera að sumum finnist þarna örla á einhverjum steinaldar-hugsunarhætti en þeir um það. Og ef svo er vil ég frekar hverfa til steinaldarinnar og leyfa ómálefnalegu fólki halda því fram að ég borði bara lambaspörð og mosa. Slíkt er miklu betra en að fylgja fallvaltri tískubylgju og fara að troða ofan í sig andfélagslegum frjálshyggjutuggum."

Undir þetta get ég ágætlega tekið. Ég vil þakka fyrir frábæra frjálsa penna.

Með kveðju,
Guðfinna. 

Heil og sæl Guðfinna.
Ég er þér hjartanlega sammála og vil þakka þér fyrir skrifin.
Kveðja,Ögmundur