Lævís leikur

Kæri Ögmundur.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir öflugt starf sem mér finnst þú vera að vinna. Það sem vakir fyrir mér er afstaða Íslands í Íraksstríði. Fyrir utan það að lögmæti ríkisstjórnarinnar er ekkert í þessu máli, eins og mörgum öðrum, þar sem einungis þriðjungur þjóðarinnar telur að afstaða Íslands í þessu skítamáli öllu sé réttlætanlegt, þá tel ég að kafa verði aðeins dýpra í málið. 

Spurningin er: Hví styður ríkisstjórnin afstöðu BNA og Breta? 

Getur verið að draumur "nokkurra" einstaklinga innan ríkisstjórnarinnar sé að komast í öryggisráðið. Með því að styðja afstöðu stóru BNA og UK þá er nokk líklegt að við fáum sæti. Þarna er kjörinn vetvangur að komast að, fyrir þungavigtarmenn í íslensku stjórnmálalífi, en útlit er fyrir að sumir "forystumenn" munu varla komast á þing. Getur verið að um gríðarlega fyrirgreiðslu sé  að ræða? 
Hvað heldur þú að liggi að baki þessarar ákvörðunar fárra manna, ATH þarna tala þeir fyrir hönd tæplega 300.000 manns.
Kv. Gunnar Sigurðsson 

Sæll Gunnar og þakka þér hlý orð.

Ég held því miður að tilgáta þín sé rétt að ráðherrarnir  séu alltaf að reyna að reikna út samkvæmt einhverjum eiginhagsmunaformúlum hvaða afstöðu þeiri eigi að taka. Það er varla hægt að hugsa sér aumari nálgun í þessu máli sem fyrst og fremst ber að skoða í siðferðilegu ljósi. Svo er náttúrlega hitt að samkvæmt þeirra eigin nálgun komast þeir að kolrangri niðurstöðu því hagsmuni Íslands reikna þeir vitlaust út.

Það hefur verið mál manna að einstaklega gott sé að bera íslenskt vegabréf hvar sem er í heiminum. Handhöfum þess sé alls staðar vel tekið. Halda menn að afstaða okkar nú sem taglhnýtingur árásarveldanna, treysti í sessi hina friðsömu ímynd sem við höfum skapað okkur? Ég held ekki.

Þegar allt kemur til alls býr sá, sem álitinn er málsvari réttæltis og kemur fram sem slíkur,  við mest öryggi. Enginn vill hrófla við honum enda gengur hann ekki á rétt annarra. Bandaríkjamenn eru hins vegar í grimmilegri hagsmunagæslu um allan heim - í þessu tilviki er það olia og hernaðarhagsmunir sem þeir hafa í sigti. Um þetta þarf ekki að deila svo augljóst er það. Bandaríkjamenn hafa meira að segja lýst þessu yfir sjálfir.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa valið sér það hlurtverk að enduróma boðskap bandarísku og bresku leyniþjónustunnar. Þetta heyrum við í daglegum yfirlýsingum þeirra. Ég man ekki eftir aumari málflutningi í utanríkispólitík í langan tíma. Þetta á að vera einhvers konar útreiknuð lævísi af þeirra hálfu. Það er rétt hjá þér að þeir félagar tala ekki fyrir munn okkar - tæplega þrjú hundruð þúsund manna þjóðar í þessu máli.

En varðandi tilraunir til að fá sæti fyrir íslenskan fullrtrúa í Örggisráðið þá held ég að það sé rétt tilgáta hjá þér að þeir telji sig vera að  að styrkja stöðu okkar með sleikjugangi gagnvart Bandaríkjamönnum og Bretum. Sannast sagna fyndist mér ekki æsklilegt að við ættum fulltrúa í Öryggisráði SÞ undir forræði þessara manna. Forsenda þess að við tökum sæti í Öryggisráði SÞ er því breytt ríkisstjórn á Íslandi. Þá  væri líka komin upp ný staða og mín skoðun er sú að við eigum að kappkosta að  láta verulega að okkur kveða á vettvangi SÞ. En það verðum við að gera sem sjálfstæð þjóð með sjálfsvirðingu og málsvari lýðræðis. Til þess að svo megi verða þurfum við að komast undan hæl herveldanna í Nató.

Kveðja, Ögmundur 

 

 

Fréttabréf