Fara í efni

Sjávarútvegsstefna VG

Sæll Ögmundur. Ég ásamt mínum skipsfélögum hef verið að velta fyrir mér sjávarútvegsstefnu hinna ýmsu stjórnmálaflokka,og það virðist vera að það séu bara frjálslyndir sem hafa "almennilega" stefnu í því máli að mér sýnist. Hvar standa Vinstri-grænir í því máli og eigum við eftir að heyra eitthvað frá ykkur á komandi vordögum??? þú veist eins og ég að það eru sirka 5.000 sjómenn sem muna eftir aðgerðum ríkistjórnarinnar í verkfalli voru hér um árið. Við viljum virkari baráttu menn fyrir okkar hönd!!!
Með kveðju Arnar

Þakka þér bréfið Arnar.
Vinstrihreyfingin grænt framboð er með mjög skýra sjávarútvegstefnu. Við höfnum algerlega núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og teljum okkur vera með mjög raunhæfar tillögur bæði varðandi það hvernig kerfið yrði lagt niður og einnig hvernig nýju kerfi yrði komið á fót. Þegar ég segi raunhæfar tillögur þá eru þær í senn afdráttarlausar en þó þannig að um þær geti skapast breið pólitísk samstaða. Við leggjum til að kerfið verði að fullu afskrifað á tuttugu árum. Kvótinn fyrnist um 5 % á ári. Hinn fyrndi kvóti komi til með að skiptast í þrjá staði. Þriðjungi verði ráðstafað á landsvísu og þá væntanlega á markaði. Þriðjungur fari til byggðarlaga sem verði í sjálfsvald sett hvernig þau ráðstafi fiskveiðiheimildum en útgerðarfélögunum sem hafa kvótann nú á hendi verði gert kleift að halda einum þriðjungi en þá gegn leigugjaldi til eigandans, þ.e. almennings. Þá er með tillögunum reynt að stuðla að vistvænum og sjálfbærum veiðum með því að hafa tonnið misþungt, ef svo má að orði komast, eftir því hvernig þess er aflað úr sjó. Ég sendi þér hér með vefslóðina þar sem gerð er grein fyrir fiskveiðistefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þetta er slóðin: http://www.vg.is/kate.php?fmPageID=68&fmExpandTo=00.00.04.03
Síðan getur þú rakið þig áfram með því að smella á einstaka kafla í spaltanum vinstra meginn. Hafðu samband að nýju ef þú vilt að ég svari einhverjum spurningum sérstaklega.
Með kveðju, Ögmundur