Fara í efni

Viðvangingar í siðfræði

Fyrir sjálfstæða fullvalda þjóð er það umhugsunarefni að í embættismannaliði  utanríkisþjónustunnar virðist ekki vera þekking, menntun, eða upplýsing til að leiðbeina þegar utanríkispólitísk þekking og reynsla er af skornum skammti hjá hinu pólitíska valdi. Þetta kemur berlega fram í Íraksmálinu. Það gerir enginn ráð fyrir að framkvæmdavaldið sé mjög upptekið af siðferðilegum spurningum og enginn reiknar með utanríkisráðuneytinu sem sérlega sterku á því svelli. Það er því ekki úr vegi að taka smá æfingu fyrir hið pólitíska framkvæmdavald. Bush yngri  Bandaríkjaforseti hefur þráfaldlega lýst yfir því að hann muni fyrirskipa árás á Írak líkt og faðir hans gerði fyrir rúmum áratug. Það mun gerast nú, eins og þá, að árásarherinn eyðileggur vatnsveitur og önnur þau almannamannvirki sem nauðsynleg eru í hvunndegi fólksins í Írak og annars staðar. Þetta er eins og hugsanlegur innrásarher á Íslandi eitraði Gvendarbrunna til að draga úr baráttuþreki Reykvíkinga og dræpi í leiðinni 300 til 400 börn. Bush eldri er ábyrgur fyrir áþekkum afleiðingum árásanna á Írak fyrir rúmum áratug og Bush yngri verður ataður barnablóði verði sú árás gerð á Íreak sem yfirvofandi er. Við þessar aðstæður stendur eftir hin innlenda siðferðilega spurning: Hver er ábyrgð þess sem styður barnadauðann í Írak? Hver er ábyrgð íslensku ríkisstjórnarinnar? Hver er ábyrgð utanríkisráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar? Ber hann til dæmis ábyrgð á dauða einhvers þeirra barna sem á eftir að deyja í Írak með yfirlýstum stuðningi sínum við stríðsherrana sem taka hinar afdrifaríku ákvarðanir?
Ólína