Fara í efni

Hvenær þjóðaratkvæðagreiðslu?

Kæri þingmaðurinn minn. Í grein þinni á vef flokksins, vg.is, Milliliðalaust lýðræði viðrar þú þá hugsun að láta almenning meira í té vald til að velja og hafna. Þarna verð ég að vera þér bæði sammála og ósammála. Fyrir það fyrsta tel ég að mikilvæg málefni verða að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru þau málefni sem ekki er afdráttarlaus sátt um á Alþingi og í þjóðfélaginu. Málefni af þessu tagi er t.a.m. EES-samningurinn, þar var skoðun meirihluta Alþingis á skjön við almenningsálit þjóðarinnar, skv. skoðunarkönnun DV. Ég er á því að Kárahnjúkaleiðindin eigi að fara fyrir dóm þjóðar, enda stærstu framkvæmdir sem Ríkið hefur/mun ráðast í. Hitt er svo annað kæri þingmaður. Hvað er mikilvæg málefni, hvar eigum við að segja staðar numið við þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég sjálfur er ekki hrifinn af svissnesku og bandarísku leiðinni þar sem lýðræði þar er mun milliliðalausara en hér. Verðum við ekki að íhuga vel hvar eigi að nema staðar í milliliðalausa lýðræðinu.
kv. gunns

Heill og sæll og þakkir fyrir bréfið. Ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að Sviss og Bandaríkin verði okkar fyrirmynd í þessum efnum. Við eigum svo langt í land með að vinna því fylgi að yfirleitt verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um hin sjálfsögðustu mál eins og þú nefnir. Mál sem miklar deilur standa um í þjóðfélaginu, eins og nýting öræfanna norðan Vatnajökuls eða EES samningurinn á sínum tíma eru dæmi um, á vissulega að taka fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. En hvar skal draga línuna? Það verður einfaldlega að meta hverju sinni. Ég er ekki sannfærður um að hægt sé að setja skýrar reglur um það efni nema þá helst að með því að með tilteknum fjölda undirskrifta megi krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu.
Með bestu kveðju, Ögmundur