Rússarnir ganga aftur

Blessaður Ögmundur.
Ég þakka hlý orð í minn garð. Kosningabaráttan er hrein skemmtun að verða finnst mér. Á dögunum var til dæmis sett upp sýning á gömlum áróðurspésum og slagorðum og vekur þar hvað mesta athygli bláa höndin. Anzi hreint hittinn sem hann er Hallgrímur Helgason. Sögulegt efni ratar einnig inn á síður dagblaða og inn á fjölmiðlana, þ.e.a.s. nú liggur svo mikið við að það verður að tjalda öllu til. Öll vopn og verjur frá öllum tímum eru nú dregin fram. Kjartan Gunnarsson er farinn að kvarta undan fréttaflutningi útvarpsins af því opnað var fyrir einhverja flokksmenn Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði sem gagnrýndu týnda stjórnmálamanninn, forsætisráðherrann. Í blöðum í dag sé ég að formaður útvarpsráðs og Bogi Ágústsson bakka upp sína menn, þ.e.a.s. flokksbrodda Sjálfstæðisflokksins, í baráttu sinni gegn undirmönnum sínum, fréttamönnum. En það er ekki bara að Kjartan sé kominn af stað. Svo mikið liggur við að meira að segja Hannes Hólmsteinn er farinn að halda stjórnmálafundi á Suðurnesjum til að styrkja lið formannsins þar. Venjulega hefur honum verið haldið til hlés þegar svo nærri er komið kosningum, en þetta eru ekki neinar venjulegar kosningar. Meira að segja blað allra landsmanna er dottið í sama farveg finnst mér. Ef minnið svíkur mig ekki er Morgunblaðið í þessari kosningabaráttu nærri því sem það var þegar voru haustkosningarnar 1979. Þá man ég ekki betur en sauðmeinlausum rússneskum skrúfuvélum hafi á baksíðu blaðsins verið beitt í kosningabaráttunni með nákvæmlega sama hætti og nú. Fengnar voru gamlar myndir frá varnarliðinu í Reykjanesbæ (þá Keflavík), greint frá flugi vélanna langt norður af landinu, þáverandi utanríkisráðherra látinn tjá sig um hættuna sem stafaði af kommúnistum, og síðan batt Morgunblaðið slaufu á pakkann með einu stykki af leiðara. Sömu brögðum er beitt nú. Kjartan, Bogi, Hólmsteinn og helvítis Rússarnir á gömlu rokkunum sínum. Vélarnar sem hér er rætt um eru nefnilega álíka gamlar að stofni til og aðferðirnar sem nú er beitt af sjálfstæðismönnum í kosningabaráttunni 2003. Frumgerðin fór í loftið 12. nóvember 1952 og er því jafnaldra Hannesar, Kjartans og Boga. Nú bíðum við bara eftir laugardagsleiðara Björns Bjarnasonar á miðopnu Moggans. Kannski hann upplýsi okkur um kafbáta á Flóanum. Ég sagði Ögmundur að mér þætti kosningabaráttan hrein skemmtun og stend við það, en hún er líka tragísk að því leiti sem ég geri hér að umtalsefni. Morgunblaðið og þessi "dirty-tricks" deild "Flokksins" gerir svo lítið úr okkur kjósendum með því að reka svona kosningabaráttu, en hér endurspeglast kannski veikleiki hins miðaldra íslenska lögmanns. Þegar hann kastar grímunni er hann réttur og sléttur þröngsýnn kaldastríðsmaður í fjötrum fáfræði þess sem ferðast í svarthvítum heimi. Ég ímynda mér Ögmundur að þú hafir verið að vísa til þessa þegar þú nefndir Stalínorðuna í Háskólanum í Reykjavík í gær? 
Ólína

Heil og sæl Ólína.
Alltaf hressandi að heyra frá þér. Þú hittir margan naglan á höfuðið.
Kveðja,Ögmundur

Fréttabréf