Fara í efni

...þá tek ég flugið og fæ mér reyk...


Sæll Ögmundur.
Sýrland er þeim ofarlega í huga núna og ósjálfrátt læt ég hugann reika tæp þrjátíu ár aftur í tímann og þá er svo merkilegt að þessi textalína úr Bláum skugga kemur ósjálfrátt í hugann og ég spyr mig: Ætli þeir séu ekki á einhverju mennirnir? Eða: Eru þeir ekki örugglega á lyfjagrasi sem horfa gagnrýnislaust á ruglið sem er í gangi? Er hér aftur vitnað í Sumar á Sýrlandi. Sir Andrew Green sem mörg sumur var sendiherra Breta í Sýrlandi var spurður um það hvort hann teldi Sýrlendinga ráða yfir efna- eða sýklavopnum. Hann útilokaði það ekki en aftók að þeir notuðu vopnin að fyrra bragði. Þeir vita sem er að ef þeir nota efnavopn þá senda Ísraelsmenn nokkrar kjarnorkusprengjur á þá, sagði sir Andrew. Hann greindi frá samskiptum Sýrlendinga og Íraka nokkrar aldir aftur í tímann og hann skilgreindi þann sess sem Sýrlendingar hafa í arabaheiminum. Allt afar fróðlegt og ábyggilega áhugavert fyrir íslensku utanríkismálanefndina að fá útskrift af skýringum þessa íhaldssama breska embættismanns, ef það er þekkingin sem gerir þann hóp bæran til að taka ákvarðanir. Sir Andrew Green kom því að í framhjáhlaupi að sitt mat væri að þeir sem ráða för í Bandaríkjunum ættu talsvert langt í land með að gera sér grein fyrir inn í hvað þeir væru búnir að róta sér í Írak. Það er svo til umhugsunar að á sama tíma og umræður hófstilltra íhaldsmanna breskra eru á þessum nótum þá keppast einhverjir drengir á Morgunblaðinu við að gera þessi alvarlegu tíðindi að einhvers konar neðanmittis brandara. Í gær flaggaði Morgunblaðið til dæmis á forsíðunni: Fundu “ástarhreiður” Saddams, og í dag er kneyfað úr þeim sama bikar sem settur var fyrir þá: “Uday haldinn fýsn í konur, áfengi og nautnalíf” segir á forsíðu þess blaðs sem vildi svo vera borgaralegt, frjálst og upplýsandi. Ætli innrásin hafi snúist samfarir og dóp? Er sú skýringin? Ætli það sé ekki frekar Carter-kenningin sem ræður för.  Er skrítið í ljósi ákvarðana og innlendu umræðunnar að mér detti í hug textalínurnar Stuðmanna frá þeim tíma, þegar bláa höndin Baatflokksins í Írak hafði tekið völdin:
...þá tek ég flugið og fæ mér reyk
hann er mín festa í lífsins leik.
Ólína