Útlit fyrir batnandi menntun og lækkandi komugjöld fram til ársins 2010

Sæll Ögmundur.
Embættismenn koma alltaf á óvart. Nú hafa undirmenn Geirs H. Haarde sent frá sér vorskýrslu um efnhagsmálin til 2010. Ánægjulegt að bjart er framundan og launamenn skuli nú sjá fram á lækkandi skatta og hækkandi laun um ókomin ár!!! Nú bíð ég bara eftir að embættismenn félagsmálaráðuneytisins sendi frá sér skýrslu um bráðan fyrirsjáanlegan bata í félagsmálum þjóðarinnar, að embættismenn Tómasar Inga Olrich mennti þjóðina í snarheitum og í síðasta lagi fyrir 2010 og að embættismenn heilbrigðisráðherra lofi lægri þjónustugjöldum, styttri biðlistum, lækkandi lyfjaverði og betri heilsu fyrir 2010.

Gamanlaust Ögmundur. Finnst þér þetta ganga í lýðræðissamfélagi sem er að fara inn í 21. öldina? Mér finnst það ekki og mér finnst þetta líka sýna okkur að æðstu stjórnendur embættismannakerfisins hjá ríkinu hljóta að vera mjög veikir embættismenn, ósjálfstæðir, eða sjálfstæðismenn. Líklega er það ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu sem ætti að taka í taumana og ef ekki hann þá ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu. Þeirra ábyrgð hlýtur að vera nokkur. Hverjir eru það? Er það eitt af þessum forgangsmálum Ögmundur sem þið í VG berið fyrir brjósti, að gera embættismennina ábyrga að þessu leyti og nútímavæða stjórnsýsluna? 
Ólína

Heil og sæl Ólína.
Ég tek undir með þér, að þótt stjórnsýslan eigi að lúta pólitískri stjórn  þá þarf að koma þeirri skipan á að ráðherrar misnoti ekki völd sín og beiti ráðuneytum sér til framdráttar í pólitíkinni.  Þú spyrð hvort ekki væri ráð að fá ráðuneytsstjórana í fjármála- og forsætisráðuneyti til að taka í taumana og reyna að koma á eðlilegum samskiptareglum á milli stjórnsýslu og hins pólitíska valds. Ég er nú ekki viss um að þeir hafi streist mjög harkalega á móti herrum sínum þeir Baldur Guðlaugsson í fjármálaráðuneyti eða Ólafur Davíðsson í forsætisráðuneyti.  Annars veit ég að þú ert gamansöm Ólína og kemur það fram í bréfi þínu frá upphafi þess og alveg til loka.
Kveðja,Ögmundur

Fréttabréf