Framsókn, bjórinn og Moby Dick

Í framhaldi af þeirri umræðu sem skapast hefur um óhefðbundin meðöl Framsóknarflokksins við að afla sér fylgis, eins og t.d. að bjóða upp á ókeypis bjór á börum í Reykjavík, enda standi B fyrir bjór, langar mig að nefna að Ungir Framsóknarmenn á Reykjanesi buðu í siglingu á hvalaskoðunarbátnum Moby Dick frá Grindavík sl. laugardag, 3. maí, og var ótæpilega veitt af ókeypis bjór í þeirri ferð. Hringt var í ungt fólk í kjördæminu, reyndar einungis fólk sem náð hafði löglegum bjórdrykkjualdri, og því boðið í siglinguna. Síðan var farið með rútu frá Reykjanesbæ til Grindavíkur, tappinn tekinn úr flöskum og siglt út. Jónína Bjartmarz mun hafa mótmælt því í útvarpinu að Framsóknarmenn notuðu þessi meðöl en þessi ferð með Moby Dick er staðreynd. Reyndar er þetta ekkert nýmæli því frásagnir herma að hér fyrr á síðustu öld hafi frambjóðendur iðulega haft pelann með þegar þeir heimsóttu bændur til sveita skömmu fyrir kosningar.
Suðurnesjamaður

Fréttabréf