Kollsteypa kjarnafjölskyldunnar framundan

Sæll Ögmundur.
Áframhaldandi velsæld og öryggi er rauði þráðurinn í þeirri tálsýn sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur að kjósendum í kosningaauglýsingum sínum. Tálsýn segi ég vegna þess Ögmundur að þeir bjóða upp á 30 milljarða skattalækkanir í leiðinni. Þetta er svo banalt að maður nennir varla að hafa orð á þverstæðunum í þessum skilaboðum, en þegar ég sé að fjölmiðlarnir gera ekkert með þetta og jafnvel ekki þið í ykkar flokki Ögmundur þá get ég ekki orða bundizt. Hvaða barnafjölskylda sem daglega þarf í glímutök við hvunndaginn til að láta enda ná saman getur leyft sér að hafna áframhaldaandi velsæld, öryggi og lægri sköttum í leiðinni? Engin. Lægra skattar hljóta að þýða að það verður einfaldara fyrir þessa fjölskyldu að greiða fyrir heilsdagsvistun barnanna, fyrir tómstundastarfið, íþróttirnar og tónlistarnámið? Lægri skattar hljóta að þýða að það verður einfaldara að kljúfa þennan 60 þúsund króna reikning á mánuði, eða hvað? Er eitthvað misræmi á milli loforðanna og veruleikans? Var það að renna upp fyrir Halldóri Ásgrímssyni eftir átta löng íhaldsár í ríkisstjórn í Garðabæ þegar hann sagði að dæmi íhaldsins gengi ekki upp? Skoðum málið.

30 milljarðarnir sem Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla að skilja eftir hjá  kjósendum svarar til alls rekstrarkostnaðar Landspítalans, alls kostnaðar við heilsugæzluna í landinu og alls kostnaðar Tryggingastofnunar ríkisins við læknishjálp á einkastofum sérfræðilækna á ársgrundvelli. Núna er mest af þessari þjónustu greitt úr sameiginlegum sjóði, en hver á að greiða þegar vantar 30 milljarða í ríkissjóð? Á barnafjölskyldan að greiða fullu verði þjónustu sérfræðilæknanna vegna veikra barna? Eiga kjarnafjölskyldurnar að snapa saman fyrir liðskiptaaðgerð fyrir ömmuna, eða hjartaskurðinn afans? Eiga vinir og vandamenn að koma sér saman um hvernig þeir skipta með sér kostnaðinum við erfiða geðlæknismeðferð vinkonunnar? Hver á greiða milljónirnar sem erfið lyfjameðferð krabbameinssjúkrar móður kostar?

Mér sýnist Ögmundur af því það hefur komið í minn hlut sem móður að fara með börn mín til læknis í gegnum tíðina að lækniskostnaðurinn verði fljótur af þurrka upp skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins sem eiga vera grunnurinn að áframhaldandi velsæld og öryggi. Ég veit líka að áralöng geðlæknismeðferð vinkonu minnar hefur kostað milljónir þótt hlutur þeirrar fjölskyldu hafi aðeins hlaupið á tugum þúsunda. Ég veit að lyfjameðferð ættingja míns sem er krabbameinssjúkur hleypur á milljónum króna. Sú fjölskylda hefur aðeins greitt brot af heildarkostnaðinum. Hjartaskurðurinn sem faðir minn lenti í kostaði ekki undir hálfri annarri milljón og með öllu má sjálfsagt tvöfalda upphæðina.

Miðaldra íslenskir lögfræðingar sem hafa verið tiltölulega lausir við veikindi eiga það sumir til að sjá veröldina í svarthvítum formum og eru flottastir þegar þeir slá um sig með aulabröndurum í vernduðum vinahópum. Sama gildir um hressa auglýsingadrengi á þrítugsaldri. Þar ganga þeir harðast fram og boða kollsteypur í atvinnulífinu komist stjórnarandstöðuflokkarnir að ráðherraborðinu.

Sú kollsteypa kjarnafjölskyldunnar sem felst í skattatillögum Sjálfstæðisflokksins er ávísun á stríðsástand og upplausn í þjóðfélaginu ef flokkurinn verður áfram við völd. Mér þykir miður Ögmundur að þú á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar skulir ekki hafa opnað augu manna fyrir því að það eru þeir sem nú njóta niðurgreiddar velferðarþjónustu og menntunar sem greiða eiga fyrir skattalækkun íhaldsins. Öðru vísi verður það reikningsstykki ekki skilið, jafnvel þótt menn beiti jafn fáránlegum frasa og að þetta hafist allt "með stækkun kökunnar"! Þið ættuð saman ASÍ og BSRB að setja málið í brennipunkt nú Ögmundur. Það eru félagsmenn ykkar sem látnir verða greiða reikninginn við áframhaldandi stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins.
Ólína

Heil og sæl Ólína og þakka þér fyrir þessa tímabæru hugvekju og skilgreiningu á pólitíkinni .  Ég ætla að leyfa mér af  veikum mætti að benda á, mér og okkur til varanr, að allt þetta kjörtímabil höfum við reynt að benda á þetta samhengi hlutanna og í þessari kosningabaráttu höfum við stillt skattalækkunartilboðunum upp sem hótun, annað hvort um niðurskurð ella aukin gjöld á sjúklinga.
Kveðja,Ögmundur

 

Fréttabréf