Með belti og axlabönd

Sæll Ögmundur
Nú þegar líða fer að kosningum eru aðal kostningaloforðin skattalækkanir og bætt kjör til almennings sem er gott. Það er kominn tími til að hinir almennu borgarar þessa lands fái að njóta þess góðæris sem sífellt er verið að tala um. Það furðar mig hinsvegar  að einungis er nefnd til sögunnar skattalækkun og ekki nefnt að afnema verðtryggingu lána sem er hið eina raunverulega vandamál almennings. Sú kjarabót sem skattalækkun hefur í för með sér fer í hægri vasa almennings og er tekin úr þeim vinstri með einhverju formi t.d. með hækkun vaxta vegna aukinar þenslu eða á einhvern annan hátt. Það sem mér býr í brjósti er: Hefur VG ekki hugleitt það að afnema verðbætur af lánum?  Það er alveg sama hvað verður gert til að bæta kjör almennings ef þetta hróplega óréttlæti fær að viðgangast. Við Íslendingar erum eina þjóðinn í Evrópu ef ekki í öllum heiminum sem lætur slíka kúgun ganga yfir þegna sína. Við berjumst fyrir launahækkunum, skattalækkunum og fl. en það er alveg ljóst að um leið og einhver árangur næst í að bæta kjör almennings í landinu þá er það tekið af okkur með okurvöxtum og verðtryggingu lána. Það er með eindæmum að ef smjör eða mjólk hækka  þá er fjármagnseigendum bætt það upp með neysluvísitöluhækkun svo að þeir missi ekki spón úr aski sínum á kostnað okkar landsmanna sem lenda í því að bilið milli skuldbindinga og ráðstöfunartekna minnkar stöðugt.  Ég skora á VG að koma með alvöru loforð um bætt kjör landsmanna og afnema verðtryggingu lána. Ég er alveg sáttur við að borga þá skatta sem ég hef gert, en hef fengið nóg af verðbótum og okurvöxtum. 
Með Kveðju 
Kristinn Ingi Jónsson

Komdu sæll. Kristinn Ingi.
Sannast sagna óar mig við skattalækkunartilboðum ríkisstjórnarflokkanna og reyndar Samfylkingarinnar einnig. Í framkvæmd er þessi stefna ávísun á niðurskurð eða aukin þjónustuútgjöld. Varðandi vextina þá er ég hjartanlega sammála þér að eitt brýnasta forgangsverkefni okkar er að lækka vaxtastigið. Okurvextir sem þú réttilega kallar þá eru að kafkeyra atvinnufyrirtæki og heimili. Varðandi verðtrygginguna þá finnst mér ekki skipta máli hvaða nafni okrið nefnist. Erlendis ná menn fram markmiðum verðtryggingar með breytilegum vöxtum - ef verðbólgan fer upp þá fylgja vextirnir einnig. Hér á Íslandi hafa fjármálastofnanir allan vara á og nota bæði verðtryggingu og breytilega vexti. Þetta kallaði ég á sínum tíma að girða sig bæði með belti og axlaböndum - orðatiltæki sem Valgerður bankamálaráherra át upp - en hefur hins vegar ekkert aðhafst til að sporna gegn ósómanum. Ég vísa í grein sem er að finna hér á síðunni undir Efnahagsmál frá 18/4 2002 en hún hét einmitt Fjármagnseigendur með belti og axlabönd. Fyrri greinin sem ég skrifaði um þetta efni er enn ekki komin inn á vefsíðuna.
Með kveðju, Ögmundur

Fréttabréf